Reykjavíkurleikarnir eru árleg íþróttahátíð sem fer fram í 13.sinn dagana 23.janúar til 2.febrúar næstkomandi. Keppt verður í 23 íþróttagreinum þar sem reiknað er með þátttöku hátt í 1000 erlendra gesta ásamt flestu af besta íþróttafólki okkar Íslendinga. Keppnin fer að mestu fram í Laugardalnum og nágrenni hans en einnig í Egilshöll, á Skólavörðustíg og víðar.
Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, mun setja leikana á blaðamannafundi í anddyri nýju Laugardalshallarinnar fimmtudaginn 23.janúar kl.12:30. Íþróttafólk úr flestum keppnisgreinum og forsvarsmenn mótanna verða viðstaddir og bjóða gestum að reyna fyrir sér í ýmsum greinum.
Keppnisgreinar leikanna í ár eru mjög fjölbreyttar og hafa aldrei verið fleiri. Á dagskránni eru akstursíþróttir, bæði í hermum og brautarakstri, badminton, borðtennis, crossfit, dans, frjálsíþróttir, brekkusprettur á hjóli, enduro hjólakeppni, júdó, karate, keila, klifur, kraftlyftingar, listskautar, ólympískar lyftingar, pílukast, rafíþróttir, skotfimi, skvass, sund, taekwondo og þríþraut.
Keppnisdagskráin skiptist niður á tvær helgar og verða lokahátíðir í Laugardalshöllinni báða sunnudagana. Einnig er ráðstefna um jafnrétti barna og unglinga í íþróttum sem fram fer í Laugardalshöll 23.janúar hluti af dagskránni. Miðasala er hafin á alla viðburði á tix.is en dagskrá og nánari upplýsingar má finna á rig.is.