Saga íþrótta í Reykjavík

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) eru heildarsamtök íþróttafélaganna í Reykjavík sem voru stofnuð 31. ágúst 1944. Í tilefni af 75 ára afmæli Íþróttabandalags Reykjavíkur árið 2019 var sagnfræðingurinn Stefán Pálsson fenginn til að taka saman tímaás um sögu íþróttanna í Reykjavík. Tímaásinn spannar tímabilið 1824 til 2019.

Þvottalaugarnar í Laugardal, konur að þvo þvott.

Nítjánda öldin: forsagan

Þéttbýlismyndun hefst á Íslandi og með því fyrsti vísir að nútímaíþróttum. Danskir kaupmenn og hálfdönsk yfirstétt stunda heldri manna greinar á borð við skotfimi og skylmingar, auk þess sem erlendar skipshafnir bregða stundum á leik og kynna landsmenn fyrir boltaíþróttum. Skólarnir í landinu eru vettvangur fyrir glímuiðkun og sundkennslu, en algjört aðstöðuleysi og almenn fátækt kemur í veg fyrir raunverulega íþróttaiðkun.

  • 1824

    Sundkennsla fyrir pilta hefst í Laugalæknum sem rann úr Þvottalaugunum til sjávar. Gerð er fyrirhleðsla í læknum til að útbúa vísi að sundlaug eða sundpolli.

  • 1840

    Glíman mikla á Grund. Um 120 glímukappar milli átján ára og fimmtugs takast á í bændaglímu á Grund í Eyjafirði. Keppnin þykir einstakur viðburður og verður mjög til að ýta undir áhuga á glímu um land allt.

  • 1858

    Fyrsta íþróttahús Lærða skólans (síðar Menntaskólans í Reykjavík) er tekið í notkun en dönsk menntayfirvöld höfðu fyrirskipað kennslu í leikfimi. Slíkar æfingar áttu meðal annars að efla varnir landsins eins og sést á fimleikaáhöldunum, sem innihéldu meðal annars tuttugu trébyssur, sex rýtinga og fjórar brynjur.

  • 1867
    Skylmingakappar um miðja 20.öld að skylmast.
    Skylmingakappar um miðja 20.öld. Skylmingar voru ein af fyrstu íþróttagreinunum sem Reykvíkingar æfðu.

    Fyrsta íþróttafélag landsins, Skotfélag Reykjavíkur, er stofnað. Félagsmenn eru einkum danskir kaupmenn og háttsettir embættismenn sem æfa einkum skotfimi og skylmingar. Skotæfingasvæði félagsins var vestur á Melum og kom það sér upp litlu húsi sem Skothúsvegur dregur í dag nafn sitt af.

  • 1870

    Sigurður Guðmundsson málari gerir uppdrátt að íþrótta- og útivistarsvæði Reykvíkinga í Laugardal. Reyndist hann í því efni sem öðrum langt á undan sinni samtíð.

  • 1873
    Fálkafáninn hannaður af Sigurði Guðmundssyni málara, hvítur fálki á bláum fleti. Skjáskot frá wikimedia.org.
    Fálkafáninn hannaður af Sigurði Guðmundssyni málara.

    Fyrsti íþróttavöllur landsins er útbúinn. Það var glímuvöllur sem Sverrir Runólfsson og félagar í Glímufélagi Reykjavíkur höfðu forgöngu um að ryðja og stóð á þeim slóðum þar sem höggmynd Einars Jónssonar, Útlagar, er nú við horn Suðurgötu og Hringbrautar. Glímufélagið var stofnað þetta sama ár. Sigurður Guðmundsson málari hannaði félagsfánann, hvítan fálka á bláum feldi. Varð fáninn með tímanum tákn fyrir sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

  • 1874

    Kristján níundi Danakóngur heimsækir Ísland og er viðstaddur 1000 ára afmælishátíð á Þingvöllum. Ákveðið er að efna til glímusýningar fyrir kónginn og verður það að hefð við konungskomur. Viðstöddum bar saman um að kóngur hafi skemmt sér vel yfir tiltækinu og hrópað þegar glíman stóð sem hæst: „For guds skyld, bræk ikke benene!“

  • 1877
    Ólafur Rósinkranz Ólafsson leikfimikennari við Lærða skólann.
    Ólafur Rósinkranz Ólafsson leikfimikennari við Lærða skólann var brautryðjandi á sviði nútímaíþróttaiðkunar á Íslandi.

    Ólafur Rósenkranz Ólafsson er ráðinn leikfimikennari við Lærða skólann. Hann innleiddi ýmsar nýjungar í íþróttamálum landsmanna og átti stóran þátt í innreið knattspyrnunnar, meðal annars sem dómari. Af þessum sökum var hann útnefndur heiðursfélagi í bæði KR og Fram.

  • 1880

    Kvennaskólinn í Reykjavík tekur fyrstur skóla leikfimi fyrir stúlkur upp í námskrá sína. Kennslan reynist þó afar stopul fyrsta aldarfjórðunginn.

  • 1884
    Sundæfingar í Laugalæknum í Laugardal.
    Sundæfingar í Laugalæknum í Laugardal.

    Sundfélag er stofnað í Reykjavík í tengslum við sundæfingar í Laugalæknum. Sundaðstaðan var snarbætt á næstu árum og reglubundin kennsla fyrir börn hafin í laugunum. Þetta fyrsta Sundfélag Reykjavíkur lognaðist þó út af nokkrum misserum síðar þegar aðalforkólfur þess, Björn Blöndal, drukknaði í sjóslysi.

  • 1885

    Sundskýli reist við Skerjafjörð að frumkvæði Sundfélags Reykjavíkur.

    Fyrstu kappreiðarnar haldnar á Skildinganesmelum sunnan Reykjavíkur. Kappreiðar voru lengi einhver vinsælasta afþreying bæjarbúa og vinsælt var að veðja um úrslit þeirra.

  • 1888
    Hópmynd af þátttakendum í Skjaldargrímunni 1909. Skjáskot frá timarit.is.
    Þátttakendur í Skjaldargrímunni 1909.

    Glímufélagið Íslendingur er stofnað af félögum í einni Góðtemplarastúkunni í Reykjavík og stóð fyrir glímuæfingum inni við Rauðará. Félagið varð skammlíft en Glímufélagið Ármann kýs að miða upphafsár sitt við stofnun þess.

  • 1891

    Sundfélag Reykjavíkur er endurvakið og ráðist er í viðgerðir á sundlauginni í Laugarnesi sem hafði drabbast mikið niður. Alþingi fjármagnaði framkvæmdirnar en Reykjavíkurbær tók að sér rekstur og viðhald.

  • 1895
    James B. Ferguson heldur á fótbolta undir hendinni.
    Prentarinn James B. Ferguson er talinn faðir bæði fótboltans á Íslandi og fimleikaíþróttarinnar.

    Ungur skoskur prentari, James Buchanan Ferguson, ræðst til starfa við Ísafoldarprentsmiðju. Þótt dvöl hans yrði ekki nema um eitt og hálft ár reyndist hann marka djúp spor í íþróttasögu landsins með því að stofnsetja fimleikaflokk og hefja skipulegar æfingar á fótbolta. Hefð er fyrir að telja Ferguson föður fótboltans á Íslandi, þótt vissulega hafi landsmenn áður fengið nasasjón af þeirri íþrótt hjá breskum sjóliðum.

  • 1896

    Íslensk dagblöð flytja fregnir af fyrstu Ólympíuleikum nútímans sem haldnir eru í Aþenu. Meðal annars er sagt frá keppni í Maraþonhlaupi sem þótti fáheyrð þrekraun.

    Sportsfélag Reykjavíkur er stofnað. Markmið þess að standa fyrir íþróttaæfingum á Austurvelli, en fljótlega hefst það handa við að ryðja íþróttavöll á Melunum sem líta má á sem fyrstu skrefin í gerð íþróttasvæðisins þar.

  • 1897

    Fyrsta þjóðhátíðin er haldin á Rauðarártúni í Reykjavík á vegum Stúdentafélagsins. Kappreiðar og íþróttasýningar voru helstu skemmtiatriðin á þessum samkomum sem drógu að sér fjölda Reykvíkinga.

  • 1898
    Menntaskólinn í Reykjavík og Íþaka hægra megin við skólann. Skjáskot frá Wikipedia.org
    Menntaskólinn í Reykjavík.

    Núverandi íþróttahús Menntaskólans í Reykjavík byggt en eldri hjallur rifinn. Húsið varð síðar vagga handboltans á Íslandi þótt lítið væri.

    Pétur Jónsson blikksmiður stofnar Glímufélagið Ármann, sem starfað hefur til þessa dags með stuttu hléi þó í byrjun tuttugustu aldar. Áratug fyrr hafði Pétur stofnað annað slíkt félag, Glímufélagið Íslending og miða Ármenningar stofnár sitt við það ártal.

  • 1899
    Fótboltamenn á Melavelli. Fótboltafélag Reykjavíkur, síðar KR, var stofnað 1899.
    Fótboltafélag Reykjavíkur, síðar KR, var stofnað 1899. Félagið æfði á Melunum þótt þar væri varla um fótboltavöll að ræða.

    Fótboltaleikur milli tveggja liða er haldinn í tengslum við þjóðhátíðarhöld Reykvíkinga á Rauðarártúni þann 3. ágúst. Næstu árin voru einhvers konar fótboltaleikir meðal skemmtiatriða á slíkum samkomum ásamt glímukeppni.

    Fótboltafélagið Reykjavíkur er stofnað í febrúar með það að markmiði að safna fyrir knetti. Félagið hóf reglubundnar æfingar vestur á Melum, þar sem hver æfing hófst á jarðvegsvinnu áður en farið var að sparka í bolta. Árið 1915 var nafni félagsins breytt í Knattspyrnufélag Reykjavíkur, skammstafað KR.

    Séra Friðrik Friðriksson stofnar Kristilegt félag ungra manna, KFUM. Þótt íþróttaiðkun hafi ekki verið yfirlýstur tilgangur félagsins reyndist það góður vettvangur fyrir hvers kyns íþróttaiðkun og fóstraði meðal annars Knattspyrnufélagið Val.

Fólk að synda í gömlu sundlaugunum í Laugardal.

1901-1910 Vakning

Fyrsti áratugur tuttugustu aldar er vakningarskeið á ýmsum sviðum íslensks stjórnmála-, atvinnu- og menningarlífs. Sömu sögu er að segja um íþróttirnar. Á nokkurra ára tímabili tileinka landsmenn sé fjölmargar nýjar íþróttagreinar þrátt fyrir aðstöðuleysi. Ný íþróttafélög skjóta upp kollinum og Íslendingar mæta á Ólympíuleika og læra þar að skipuleggja íþróttamót. Norðmenn, búsettir á Íslandi, eru í veigamiklu hlutverki við að miðla hinum nýju íþróttagreinum.

  • 1901

    Heimildir benda til þess að Knattleiksfélag stúlkna hafi starfað í Reykjavík, sem einkum hafi verið skipað nemendum í Kvennaskólanum. Erfitt er að segja til um hvaða íþrótt félagið hefur lagt stund á og ólíklegt að um fótbolta hafi verið að ræða. Nemendur skólanna í Reykjavík léku sér um þessar mundir í ýmsum boltaleikjum sem kölluðust einu nafni knattleikur þótt reglurnar væru mismunandi.

  • 1905
    Dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði.
    Dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði.

    Björn Bjarnason frá Viðfirði ver doktorsritgerð sína í norrænum fræðum. Ritgerðin kom síðar út á bók: Íþróttir fornmanna. Hún vakti mikinn áhuga, enda sáu Íslendingar söguöldina í hetjuljóma. Bókin átti stóran þátt í að aukaíþróttaáhuga landsmanna og skapaði tengingu milli íþróttaiðkunar og þjóðernishyggju.

  • 1906

    Ungmennafélag Reykjavíkur er stofnað. Einungis karlar máttu ganga í félagið, en tveimur árum síðar ef Ungmennafélagið Iðunn stofnað fyrir konur. Ungmennafélögin höfðu iðkun íþrótta á stefnuskrá sinni, en markmiðin voru þó fjölbreytilegri. Má þar nefna skógrækt, leiklist og áfengisvarnir, en krafa var gerð til bindindis í hreyfingunni.

  • 1907

    Íþróttafélag Reykjavíkur er stofnað af Andreas J. Berthelsen, ungum Norðmanni. Tilgangurinn var að æfa fimleika og fóru æfingar fram í sal í Miðbæjarskólanum. Fimleikar þessa tíma voru um margt frábrugðnir því sem tíðkast í dag og verður best lýst sem einhvers konar millistigi ballets og fimleika samtímans.

    Skíðafélagið Áfram er stofnað af Norðmönnum sem búsettir eru í Reykjavík. Félagið varð skammlíft en náði þó að ryðja skíðabraut í Ártúnsbrekku sem hefur upp frá því verið nýtt til skíðaiðkunar.

  • 1908
    Gínur í skíðabúnaði í búðarglugganum hjá L.H. Müller kaupmanni.
    Norðmenn búsettir á Íslandi kynntu skíðaíþróttina fyrir landsmönnum. Búnað til vetraríþrótta mátti kaupa hjá L.H. Müller kaupmanni.

    Knattspyrnufélögin Fram og Víkingur teljast bæði stofnuð þetta ár. Fyrst um sinn var þó ekki um sérstaklega skipulögð félög að ræða, heldur vinahópa sem spiluðu saman fótbolta. Framararnir voru flestir um fermingu en Víkingarnir þremur til fjórum árum yngri.

    Félagar í ungmennafélögunum í Reykjavík stofna félagið Skíðabrautina hf. og hefjast handa við að ryðja skíðabraut í nágrenni Öskjuhlíðar, þar sem þeim fannst alltof langt að fara alla leið í Ártúnsbrekku á skíði. Í sex sumur er unnið að kappi við grjótruðninga og uppgræðslu. Skíðabrautin sjálf varð þó sáralítið notuð, meðal annars af því að þar festi illa snjó.

    Íslendingar senda flokk glímukappa á Ólympíuleikana í Lundúnum til að kynna glímuna fyrir umheiminum. Jóhannes Jósefsson skráir sig einnig til keppni grísk-rómverskri glímu. Ferðin hefur mikil áhrif á alla þátttakendur og mótar mjög hugmyndir þeirra um hvernig halda skuli íþróttamót.

  • 1909

    Sundskáli með fjórtán búningsklefum er reistur í Skildinganesi skammt frá Þormóðsstöðum. Hann fær nafnið Grettir eftir samnefndu sundfélagi sem stóð að byggingunni. Við opnun skálans stinga nokkrar konur sér til sunds sem vekur mikla athygli, enda opinber íþróttaiðkun kvenna fáheyrð á þessum árum.

     

    Fyrsta íslenska skautamótið. Keppt er í skautahlaupi á Tjörninni. Hlutskarpastur verður íþróttagarpurinn Sigurjón Pétursson sem síðar er kenndur við Álafoss.

  • 1910

    Nýjárssund Reykvíkinga er haldið í fyrsta sinn í sjónum á Skerjafirði.

    Fyrsta opinbera fimleikasýningin er haldin á vegum ÍR í porti Austurbæjarskóla.

    Vakningafundur Fótboltafélags Reykjavíkur er haldinn. Starfsemi félagsins hafði að mestu legið niðri síðustu ár, en nú er blásið til nýrrar sóknar.

Margmenni á Melavelli. Í forgrunni sjást margir bílar á planinu fyrir framan völlinn.

1911-1920 Völlurinn

Íþróttafélögum fjölgar ört og þau mynda með sér samtök. Í Reykjavík er stærsta viðfangsefnið að koma upp íþróttavelli vestur á Melum sem verður miðstöð íþróttalífs landsmanna næstu áratugina. Vetraríþróttir eflast. Fyrri heimsstyrjöldin veldur þungum búsifjum í efnahagslífi þjóðarinnar sem veldur því að þessu fyrsta blómaskeiði íslenskra íþrótta lýkur, nema á sviði fótbolta sem verður langvinsælasta íþróttagreinin í höfuðstaðnum.

  • 1911
    Fótboltamenn á Melavellinum.
    Íþróttavöllurinn á Melunum var tekinn í notkun árið 1911 og varð þegar mekka íslensks íþróttalífs.

    Knattspyrnufélagið Valur er stofnað af drengjum í KFUM.

    Íþróttavöllurinn á Melunum er vígður þann 11. júní. Árið áður höfðu íþróttafélög bæjarins stofnað félag um gerð vallarins og stofnað í því skyni Íþróttasamband Reykjavíkur. Fimleikar og fótbolti eru í aðalhlutverki á vígsluhátíðinni.

    Íþróttamót hefst á glænýjum Melavelli þann 17. júní á 100 ára afmælisdegi Jóns Sigurðssonar og stendur í átta daga. Mótið er samstarfsverkefni UMFÍ og reykvísku íþrótafélaganna og voru þátttakendur um sjötíu talsins. Skipulag mótsins tók mjög mið af Ólympíuleikunum.

  • 1912
    Hópmynd af leikmönnum Fram og Fótboltafélags Reykjavíkur að afloknu fyrsta Íslandsmótinu í knattspyrnu.
    Leikmenn Fram og Fótboltafélags Reykjavíkur að afloknu fyrsta Íslandsmótinu í knattspyrnu.

    Tólf íþróttafélög stofna Íþróttasamband Íslands í ársbyrjun. Tíu þeirra eru starfrækt í Reykjavík. Axel V. Tulinius er kjörinn fyrsti forseti sambandsins, en aðalhvatamaður að stofnuninni er þó Sigurjón Pétursson. Tilgangur hans var öðrum þræði sá að greiða fyrir þátttöku Íslands á Ólympíuleikunum sama ár.

    Framarar unnu sigur á Fótboltafélagi Reykjavíkur á íþróttamótinu 1911 og kom það mjög á óvart þar sem liðsmenn Fram voru flestir 16-17 ára gamlir en andstæðingarnir fullorðnir karlmenn. Við sigurinn hleypur Frömurum kapp í kinn og þeir stofna til Íslandsmót í fótbolta. Þrjú lið mæta til keppni: Fram, Fótboltafélagið og Vestmannaeyingar. Fótboltafélagið hlýtur þennan fyrsta Íslandsmeistaratitil.

    Ólympíuleikar eru haldnir í Stokkhólmi. Íslendingar fá því áorkað að glíma er önnur af tveimur opinberum sýningargreinum leikanna ásamt hafnabolta. Glímuflokkur frá Íslandi sýnir íþróttina á Ólympíuleikvangnum og keppir jafnframt um verðlaunabikar sem áformað var að nota á komandi leikum. Á þessum árum bundu menn miklar vonir við að íslensk glíma færi sigurför um heiminn.

  • 1913

    Norski kaupmaðurinn L. H. Müller heldur í fimm daga skíðaför ásamt þeim Herluf Clausen og Tryggva Magnússyni þar sem leiðin liggur meðal annars um Þingvelli og Borgarfjörð. Þótti þetta mikið afrek og varð mjög til að auka áhuga Reykvíkinga á skíðamennsku. Müller var helsti íþróttavörukaupmaður Reykjavíkur og seldi mikið af skíðabúnaði og skautum.

    Jóhannes Jósepsson heldur með sýningarflokk sinn, Josephson´s Icelandic Glima Troupe, vestur um haf og sýnir meðal annars í Madison Square Garden. Næstu ár ferðast hann um Bandaríkin þver og endilöng og sýnir listir sínar í glímu og fangbrögðum.

  • 1914

    Skíðafélag Reykjavíkur er stofnað.

    Benedikt G. Waage syndir Viðeyjarsund, sem þykir mikið afrek.

  • 1916
    Tveir glímukappar takast á.
    Glímukappar takast á.

    Lausn finnst á deilum Fram og KR um skipulag knattspyrnumóta. KR-ingar voru ósáttir við að Framarar hirtu allan hagnaðinn af Íslandsmótinu og höfðu því ekki mætt til leiks undanfarin tvö ár. Málamiðlunin verður sú að KR stofnar sitt eigið mót, Reykjavíkurmótið, sem enn er starfrækt.

    Axel Tulinius stendur fyrir fótboltaæfingum stúlkna hjá Víkingi. Þær urðu þó skammvinnar. Víða um lönd æfðu stúlkur knattpspyrnu á öðrum áratugnum og á Ísafirði starfaði um tíma sérstakt knattspyrnufélag stúlkna. Fordómar í samfélaginu og bein andstaða íþrótaforystunnar unnu gegn þessum tilraunum.

  • 1917

    Þriðja knattspyrnumótið er stofnað í Reykjavík. Framarar héldu keppnina um Íslandsbikarinn og hirtu allan hagnað af mótinu. KR-ingar áttu á sama hátt sitt mót, keppnina um Reykjavíkurhornið. Valsmenn fylgdu í kjölfarið og stofnuðu til keppni um Íslandshornið. Nöfnin voru óneitanlega keimlík og ekki bætti úr skák að sömu liðin kepptu í mótunum öllum. Keppnin um Íslandshornið varð þó skammlíf þar sem Framarar unnu verðlaunagripinn til eignar fáeinum árum síðar.

  • 1918

    Stjórnendur Skautafélags Reykjavíkur eru harðlega gagnrýndir í blöðum fyrir að standa sig ekki í stykkinu og vera of svifaseinir að bregðast við þegar veðrátta gefur færi á að útbúa skautasvell. Til marks um það tókst félaginu aðeins einu sinni að útbúa nothæft svell frostaveturinn mikla.

  • 1919
    Hópmynd af kappliði Akademisk boldklub og Reykjavíkurúrvalsins sumarið 1919.
    Kapplið Akademisk boldklub og Reykjavíkurúrvalsins sumarið 1919.

    Danmerkurmeistararnir í knattspyrnu, Akademisk Boldklub, eru fyrsta erlenda liðið til að heimsækja Ísland. Með liðinu lék Íslendingurinn Samúel Thorsteinsson, en hann var jafnframt í danska landsliðinu. Danirnir höfðu yfirburði í öllum leikjum sínum í ferðinni, nema einum sem úrvalslið Reykjavíkur vann afar óvænt. Sá leikur fór fram daginn eftir að gestunum hafði verið boðið í reiðtúr til Hafnarfjarðar þar sem boðið var upp á góðar veitingar.

    Til að undirbúa komu danska liðsins Akademisk Boldklub stofna reykvísku félögin Knattspyrnunefnd Reykjavíkur. Nafni hennar er síðar breytt í Knattspyrnuráð Íslands og loks árið 1922 í Knattspyrnuráð Reykjavíkur, sem enn starfar.

  • 1920
    Hópmynd af íshokkíleikmönnum Fálkans. Fálkarnir, vestur-íslenska sigurliðið á Ólympíuleikunum 1920.
    Fálkarnir, vestur-íslenska sigurliðið á Ólympíuleikunum 1920.

    Kanadíska ísknattleiksliðið Fálkarnir sigra á Ólympíuleikunum í Antwerpen. Nær allir leikmenn og þjálfarar liðsins eru Íslendingar eða af íslenskum ættum.

    Íslendingum stendur til boða að sýna glímu á Ólympíuleikunum og keppa um glímubikar þann sem sænski kóngurinn gaf á leikunum í Stokkhólmi árið 1912. Ákveðið er að afþakka boðið þar sem von er á danska kónginum til Íslands og mikilvægt var talið að bestu glímukappar landsins gætu sýnt honum listir sínar. Glíma hefur aldrei aftur komist á dagskrá Ólympíuleikanna og konungsheimsóknin frestaðist um eitt ár.

    Tennisfélag er stofnað í Reykjavík og starfar um nokkurra ára skeið. Félagið æfði á lóð Miðbæjarskólans og á velli sem það kom sér upp í grennd við Höfða. Til að fjármagna þær vallarframkvæmdir lét félagið semja og flytja revíu í Iðnó við miklar vinsældir. Sú sýning er talin marka upphafið á revíutímabilinu í leikhúslífi Íslendinga.

Ísland - Danmörk, leikmenn liðanna á Melavelli árið 1946.

1921-1930 Útþrá

Íslendingar eru sannfærðir um að glíman sé fegurst allra íþrótta og láta sig dreyma um að vekja áhuga umheimsins á henni. Á sama hátt vaknar áhugi iðkenda annarra íþróttagreina á að fá að spreyta sig í keppni við útlendinga. Heimsóknir erlendra knattspyrnuflokka vekja mikla athygli og íslensku leikmennirnir ala þann draum í brjósti að gera garðinn frægan erlendis. Fimleikakonur hleypa heimdraganum og slá í gegn í Evrópu.

  • 1921
    Benedikt G. Waage við vígslu íþróttahússins Hálogalands.
    Benedikt G. Waage við vígslu íþróttahússins Hálogalands. Hann var um árabil einn helsti forystumaður íslensks íþróttalífs.

    Íþróttafélag stúdenta er stofnað við Háskóla Íslands. Sumir forystumanna Háskólans horfðu til bandarískra háskóla og létu sig dreyma um blómlegt íþróttastarf innan skólans en raunin varð sú að flestir íþróttamenn úr röðum stúdenta héldu tryggð við sín gömlu íþróttafélög í Reykjavík meðan á námi stóð.

    Efnt er til glímukeppni á Þingvöllum í tilefni af komu Kristjáns tíunda. Hermann Jónasson vinnur allar sínar glímur en dómurum keppninnar finnst glímustíll hans ljótur og bikarinn fellur í skaut þeim keppanda sem talinn var glíma fallegast.

    Úrskurður þessi á eftir að draga dilk á eftir sér. Hermann tók niðurstöðunni afar illa og hætti glímuiðkun. Mörgum árum síðar, þegar Hermann er orðinn forsætisráðherra og lét skipa nefnd til að semja Íþróttalög er Benedikt G. Waage forseti ÍSÍ ekki meðal nefndarmanna. Er ástæðan talin sú að Hermann kenndi Benedikt um lyktir mála í konungsglímunni 1921.

  • 1922

    Slysasjóður íþróttamanna er stofnaður. Sjóðurinn er fjármagnaður með hluta af miðaverði á öllum íþróttaviðburðum.

  • 1923
    Íþróttavörur auglýstar á þriðja áratugnum. Skjáskot frá timarit.is
    Íþróttavörur auglýstar á þriðja áratugnum.

    Íþróttablaðið Þróttur kvartar undan því að íþróttalíf Reykavíkinga sé ekki nægilega fjölbreytt. Á árunum fram að fyrri heimsstyrjöldinni hafði mikil gróska verið í íþróttunum en mjög dró úr henni í þrengingum stríðsins á öðrum sviðum en í knattspyrnu sem var orðin langvinsælasta íþróttagreinin.

  • 1924

    Þrátt fyrir mikil áform verður ekkert úr því að Íslendingar sendi fulltrúa á Ólympíuleikana í París. Knattspyrnumenn höfðu sérstakan hug á að skrá sig til keppni og söfnuðu allnokkrum ferðasjóði meðal annars með uppsetningu á leikritinu Skugga-Sveini. Slíkt hefði eftir á að hyggja verið feigðarflan. Íslenskir fótboltamenn höfðu aldrei farið út fyrir landsteinana, höfðu enga reynslu af því að spila á grasi og andstæðingarnir hefðu verið úr hópi bestu liða í heimi.

  • 1925
    Fólk að synda og sóla sig í gömlu sundlauginni við Sundlaugarveg.
    Gamla sundlaugin við Sundlaugarveg.

    Girðingin umhverfis íþróttavöllinn á Melunum fýkur í ofsaveðri í ársbyrjun. Ástand vallarins þótti afar bágborið og hann varla leikfær, en reykvískir íþróttamenn gera sér hann að góðu í eitt ár enn.

    Alþingi samþykkir lög sem heimila sveitarfélögum að skylda unglinga til sundnáms. Reykjavík, Vestmannaeyjar og Austur-Eyjafjallahreppur eru einu staðirnir sem nýa sér heimildina.

    Skipulagsuppdráttur Reykjavíkurbæjar gerir ráð fyrir nýju aðalíþróttasvæði bæjarins norðaustan við Landspítalann. Þar á að koma fyrir fyrir lítilli sundlaug, tennisvöllum og örlitlum æfingarvelli auk leikvangs. Svæðið hefði hins vegar verið umkringt byggingum á alla kanta og stækkunarmöguleikar því engir.

  • 1926
    Kort af íþróttasvæði Melavallar.
    Kort af íþróttasvæði Melavallar.

    Nýr íþróttavöllur er vígður á Melunum, hinn eiginlegi Melavöllur. Ekki þótti borga sig að laga gamla völlinn, auk þess sem skipulagsyfirvöld vildu láta hann víkja til að rýma fyrir stækkun Hringbrautar.

    Hnefaleikasýning er haldin í Iðnó á vegum Ármanns og vekur mikla athygli. Fjórir menn sýna þar listir sínar. Næstu árin voru hnefaleikamót haldin stopult og oft hart deilt um ágæti íþróttarinnar sem þótti ofbeldisfull.

  • 1927

    Sundfélagið Ægir er stofnað.

    Jóhannes Jósefsson snýr aftur til Íslands eftir margra ára dvöl í Bandaríkjunum þar sem hann sýndi glímu og bardagaíþróttir í fjölleikahúsunum. Hann auðgaðist vel á ferlinum og notar sparnaðinn til að reisa Hótel Borg, fyrsta íslenska lúxushótelið og var upp frá því ætíð kenndur við Borg.

    Regína Magnúsdóttir úr KR vekur mikla athygli fyrir sundafrek sín. Hún nær til að mynda besta tíma ársins í 100 metra baksundi, karla og kvenna.

  • 1928

    Flokkur fimleikastúlkna úr ÍR heldur í keppnisför til Evrópu og gerir garðinn frægan. Ákveðið er að senda hópinn frekar á fimleikahátíð í Calais í Frakklandi og til Lundúna en á Ólympíuleikana í Amsterdam. Velta má því fyrir sér hvort sú ákvörðun hafi kostað Ísland sitt fyrsta Ólympíugull?

    Keppt í sundknattleik á Íslandi í fyrsta sinn. Lið frá Ægi og Ármanni eigast við.

  • 1929
    Skrúðganga. Setningarhátíð Íslandsmótsins í knattspyrnu árið 1929. Mótið hófst ætíð á skrúðgöngu úr miðbænum að Melavelli.
    Setningarhátíð Íslandsmótsins í knattspyrnu árið 1929. Mótið hófst ætíð á skrúðgöngu úr miðbænum að Melavelli.

    KR festir kaup á samkomuhúsinu Bárubúð eða Bárunni við Vonarstræti. Húsið nýttist fyrir hvers kyns fundi, samkomur og íþróttaæfingar. Á stríðsárunum tók breski herinn Báruna traustataki og brann hún til grunna í þeirra umsjá.

    ÍR er fyrsta félag landsins til að eignast eigið íþróttahús. Félagið kaupir þá gömlu kirkju kaþólska söfnuðarins við Landakot og innréttar fyrir íþróttaæfingar.

  • 1930

    Fyrsta utanför íslenskra knattspyrnumanna. Fimmtán manna flokkur auk þjálfara og fararstjóra halda til Færeyja og leika nokkra æfingaleiki í kringum Ólafsvöku. Um var að ræða úrvalslið Reykjavíkur og voru nær allir í hópnum úr KR og Val.

    Austurbæjarskóli tekur til starfa. Hann var á sínum tíma talinn eitthvert fullkomnasta skólahúsnæði á Norðurlöndum og hafði meðal annars að geyma íþróttasal og litla kennslusundlaug innanhúss.

Grindarhlaupari á Melavelli.

1931-1940 Áætlanir

Heimskreppan lék Íslendinga grátt og þar með íþróttahreyfinguna, til að mynda tefst opnun Sundhallarinnar um sjö ár vegna kreppunnar. En þótt fjárhagurinn væri þungur var metnaðurinn fyrir hendi. Reykvískir íþróttamenn skipuleggja gríðarstórt íþróttasvæði í Nauthólsvík til að leysa Melavöllinn af hólmi. Fyrstu félögin tryggja sér lönd fyrir framtíðarfélagssvæði og fyrsti vísir að inniíþróttum tekur að myndast.

  • 1931

    Íþróttafélag verkamanna er stofnað í Reykjavík. Aðstandendur þess eru kommúnistar sem vildu ekki starfa innan hinnar hefðbundnu íþróttahreyfingar þar sem hún væri of borgaraleg. Klofningur af þessu tagi átti sér stað víða um lönd á þriðja og fjórða áratugnum og voru jafnvel haldnir sérstakir verkamannaleikar til höfuðs Ólympíuleikunum.

    Flestir íþróttamenn úr röðum kommúnista kusu þó að halda tryggð við sín gömlu félög. Íþróttafélag verkamanna varð skammlíft, en mun hafa verið fyrsta félagið á Íslandi til að leggja stund á blak.

    Norski íþróttakennarinn og kaupmaðurinn Reidar Sörensen kynnir „kylfusveiflur“ á íþróttahátíð, sem sögð var lítt þekkt íþróttagrein hér á landi en vinsæl meðal Englendinga. Freistandi er að telja þetta upphafspunkt golfíþróttarinnar á Íslandi.

  • 1932

    Knattspyrnuráð Reykjavíkur ályktar um nauðsyn þess að eignast grasvöll eða grasvelli til æfinga. Lítið þokaðist í þeim málum og malarvellirnir héldu áfram að vera allsráðandi næstu áratugina.

    Af þeim 42 íþróttafélögum sem sendu ársskýrslu til ÍSÍ reynast konur tæplega fjórðungur iðkenda. Meirihluti þeirra var í Reykjavíkurfélögunum ÍR og Ármanni og lögðu flestar stund á fimleika.

  • 1933
    Ármenningar æfa róður í Reykjavíkurhöfn árið 1933.
    Ármenningar æfa róður í Reykjavíkurhöfn árið 1933.

    Fulltrúar frá ÍR halda til Danmerkur að kynna sér nýjungar í íþróttamálum. Þeir komast fyrir tilviljun í kynni við badminton sem þá naut mikilla vinsælda í Kaupmannahöfn. Þeir félagarnir lærðu reglurnar í skyndi, festu kaup á búnaði og í kjölfarið hófust æfingar í greininni hér á landi. Ekki var þó um opinbera keppni að ræða í bráð.

  • 1934
    Teikning af Skíðaskálanum í Hveradölum. Skjáskot frá timarit.is
    Teikning af Skíðaskálanum í Hveradölum.

    Golfklúbbur Reykjavíkur (upphaflega Golfklúbbur Íslands) stofnaður af hópi lækna og athafnamanna sem kynnst höfðu íþróttinni á ferðum sínum erlendis. Þar sem félagsmenn voru sterkefnaðir tók það skamman tíma að koma upp golfvelli og félagsheimili, fyrst til bráðabirgða í Laugardal, þar sem Laugardalsvöllur stendur í dag, en síðar í Kringlumýri, þar sem nú má finna Borgarleikhúsið og Verslunarskóla Íslands.

    Unni Jónsdóttur er sagt upp sem þjálfara fimleikaflokks kvenna hjá KR en karlmaður ráðinn í hennar stað. Unnur vildi ekki una þessu og stofnaði því Íþróttafélag kvenna sem hafði ýmsar greinar á dagskrá sinni, má þar nefna sund, fimleika og hjólreiðar. Félagið kom sér upp skíðaskála og varð veturinn 1956-7 fyrst allra til að hefja æfingar á jiu jitsu, sem þá nefndist „japönsk glíma“.

    Skíðaskálinn í Hveradölum reistur. Meðal annars var safnað fyrir byggingunni með svokallaðri tveggjakrónuveltu sem var á þann hátt að forsætisráðherrann, Hermann Jónasson, gaf tvær krónur til söfnunarinnar og nafngreindi þrjá menn sem hann hvatti til að gera slíkt hið sama og svo koll af kolli. Nöfn þeirra sem greiddu og hinna sem skorað var á birtust í Morgunblaðinu og þorðu fáir því að slíta keðjuna, a.m.k. í fyrstu.

  • 1935
    Teikning af íþróttasvæði Reykjavíkur í Fossvogi eins og það var fyrirhugað árið 1935. Skjáskot frá timarit.is
    Íþróttasvæði Reykjavíkur í Fossvogi eins og það var fyrirhugað árið 1935.

    Jón Þorsteinsson reisir íþróttahús við Lindargötu sem við hann er kennt. Áður hafði Jón leitað sér menntunar í íþróttakennarafræðum í Þýskalandi og þá sérstaklega kynnt sér svokallaðar Müllers-æfingar. Íþróttaskóli Jóns var starfræktur til ársins 1976 og má líta á starfsemi hans sem upphaf iðjuþjálfunar hér á landi.

    Þar sem íþróttasalurinn í hinu nýja húsi var ívið stærri en í þeim íþróttahúsum sem fyrir voru í bænum var það sjálfkjörinn vettvangur fyrir fyrsta Íslandsmótið í handbolta árið 1940.

    Íþróttafélögin í Reykjavík taka höndum saman um að reisa nýtt íþróttasvæði bæjarins í Nauthólsvík í stað Melavallar sem talinn var úreltur. Þar var ætlunin að koma upp sundbaðsstað, skeiðvelli fyrir kappreiðar og leikvangi fyrir allt að 30 þúsund manns, litlu færri en heildaríbúafjöldi Reykjavíkur á þeim tíma. Þá áttu knattspyrnufélögin fjögur að fá hvert sinn æfingarvöll og félagsheimili.

    Keypt var stór landspilda og hafist handa við jarðvegsframkvæmdir. Heimsstyrjöldin og síðar gerð Reykjavíkurflugvallar varð til þess að áformin fóru út um þúfur, Að stríðinu loknu höfðu sjónarmið breyst og áherslan lögð á að byggja upp aðstöðu fyrir einstök íþróttafélög í innan bæjarhverfa.

  • 1936
    Mynd af hnefaleikara í kringum 1930.
    Þorsteinn Gíslason rak hnefaleikaskóla í Reykjavík 1935-6. Hnefaleikaíþróttin naut vinsælda en var alla tíð umdeild.

    Skautaiðkun í Reykjavík færist í vöxt eftir nokkurt hlé. Knattspyrnufélagið Fram útbýr skautasvell á Austurvelli og leikur tónlist af svölum útvarpshússins. Múgur og margmenni mætir á skauta og í kjölfarið er Skautafélag Reykjavíkur endurvakið í annað sinn.

    Ólympíuleikar haldnir í Berlín. Þjóðverjar veittu rausnalega ferðastyrki og sendu Íslendingar hóp íþróttamanna til keppni, þar á meðal heilt sundknattleikslið þrátt fyrir að sú íþrótt væri lítt stunduð á Íslandi. Að auki buðu gestgjafarnir um þrjátíu íþróttaþjálfurum og forystumönnum úr íþróttahreyfingunni til Berlínar til að fylgjast með leikunum og kynna sér þjálfun íþróttafólks.

  • 1937
    Sundhöllin í Reykjavík, fólk í innilauginni.
    Sundhöllin í Reykjavík

    Sundhöll Reykjavíkur er tekin í notkun eftir langa og stranga byggingarsögu. Upphaflega var ráðgert að sundlaugin yrði tilbúin árið 1930 og var gerð hennar aðalhvatinn að lagningu hitaveitunnar úr Þvottalaugunum. Sama ár skall heimskreppan á Íslendingum af fullum þunga og stóð Sundhöllin hálfköruð næstu árin. Með Sundhöllinni gjörbreyttust aðstæður Reykvíkinga til sundiðkunar en ekki síður líkamsþrifa, enda voru sturtur eða baðkör fáséður munaður á heimilum bæjarbúa.

  • 1938

    Íþróttafélag Reykjavíkur festir kaup á bænum Kolviðarhóli. Húsið var nýtt til skíðaiðkanna á vetrum en sem æfingarbúðir fyrir frjálsíþróttafólk á sumrin.

  • 1939

    Reykjavíkurfélögin Valur og KR ráðast bæði í kaup á landi. Valsmenn fjárfesta í bújörðinni Hlíðarenda en hópur gamalla knattspyrnumanna kaupir land í Kaplaskjóli og færir félaginu í gjöf á fjörutíu ára afmæli þess. Kaupin eru til marks um að reykvískum knattspyrnumönnum finnist ganga hægt að byggja upp hið nýja fyrirhugaða íþróttasvæði í Nauthólsvík.

  • 1940
    Leikfimi í Austurbæjarskóla. Ungir strákar á stuttbuxum hanga í trérimlum.
    Leikfimikennsla í Austurbæjarskóla.

    Mestu óeirðir á íslenskum íþróttakappleik fyrr og síðar eiga sér stað eftir Reykjavíkurmótsleik Fram og Víkings. Lögreglumenn eru grýttir, lögreglubílum velt og um þrjátíu áhorfendur voru færðir í fangaklefa. Kveikjan að óeirðunum var umdeildur vítaspyrnudómur.

    Íþróttalög eru samþykkt á Alþingi. Þau fela í sér að íþróttir eru gerðar að skyldunámsgrein á öllum skólastigum og ríkið veitir stuðning við byggingu íþróttamannvirkja.

Fimleikastúlkur úr úrvallsflokki fimleikadeildar Ármanns ganga inn á Melavöll á þjóðhátíðardaginn 17.júní 1958.

1941-1950 Æskulýður

Með íþróttalögum er tónninn sleginn fyrir stórátak í uppbyggingu íþrótta, en það þurfti stríðsgróða og fólksfjöldasprengju til að hrinda því af stokkunum. Til verður nýr þjóðfélagshópur - unglingurinn – millistig bernsku og fullorðinsára, sem gerir kröfu um tómstundir og afþreyingu. Íþróttabandalag Reykjavíkur er stofnað sem hagsmunasamtök og samstarfsvettvangur íþróttafélaganna í bænum.

  • 1941

    Embætti íþróttafulltrúa ríkisins er komið á legg í samræmi við ný íþróttalög. Þorsteinn Einarsson tekur við embættinu og gegnir því í fjóra áratugi.

    Íslandsmót í ellefu manna handbolta utanhúss er haldið í fyrsta sinn. Leikið var á knattspyrnumörk og var íþróttin talsvert frábrugðin hefðbundnum handknattleik. Alls var keppt fimm sinnum um titil þennan og unnu Valsmenn eða Víkingar í öll skiptin.

  • 1942
    Prjónasokkar auglýstir á fimmta áratugnum. Skjáskot frá timarit.is
    Prjónasokkar auglýstir á fimmta áratugnum.

    Handknattleiksráð Reykjavíkur er stofnað. Það sér í raun um yfirstjórn handboltamála í landinu þar til Handknattleikssamband Íslands er stofnað árið 1957.

    Golfsamband Íslands, fyrsta séríþróttasambandið, er stofnað. Sú ákvörðun var raunar tekin í óþökk forystu ÍSÍ sem hafði talið sérsambönd óþörf, en þess í stað viljað halda sig við sérstök íþróttaráð um einstakar greinar sem lyku forystu sambandsins. Árið eftir er lögum ÍSÍ breytt á þann veg að stofnun sérsambanda er heimiluð.

  • 1943

    Ármenningar frumsýna fyrstu íslensku íþróttakvikmyndina. Hún hefur að geyma svipmyndir frá starfsemi félagsins í hinum ýmsu íþróttagreinum.

  • 1944
    Handboltastúlkur úr Reykjavík keppa utanhúss á Akranesi sumarið 1944.
    Handboltastúlkur úr Reykjavík keppa á Akranesi sumarið 1944.

    ÍR fær vilyrði ríkisins fyrir rúmlega 600 fermetra lóð við Sölvhólsgötu. Þar var ætlunin að byggja nýtt og veglegt íþróttahús sem tekið yrði í notkun á fjörutíu ára afmæli félagsins þremur árum síðar. Kaup íþróttahreyfingarinnar á Hálogalandi tveimur árum síðar röskuðu þessum áformum og að lokum skilaði félagið lóðinni án þess að til framkvæmda kæmi.

    Íþróttabandalag Reykjavíkur er stofnað. Íþróttalögin frá 1940 gerðu ráð fyrir stofnun slíkra héraðssambanda, en ýmsir innan íþróttahreyfingarinnar töldu óþarft að gera slíkt í höfuðstaðnum þar sem Reykjavík væri miðstöð íþróttastarfs landsmanna. Svo fór að lokum að Bjarni Benediktsson borgarstjóri setti félögunum í bænum stólinn fyrir dyrnar og krafðist þess að þau sameinuðust í eitt bandalag til að auðvelda samskipti við bæjaryfirvöld.

  • 1945

    Fram er fyrsta Reykjavíkurfélagið til að eignast sinn eigin knattspyrnuvöll. Hann er á félagssvæði Framara í gamalli grjótnámu við Skipholt, neðan Sjómannaskólans.

  • 1946
    Teikning af fyrirhugaðri æskulýðshöll í Reykjavík.
    Teikning af fyrirhugaðri æskulýðshöll í Reykjavík.

    Gunnar Huseby verður Evrópumeistari í kúluvarpi. Fyrsta stórafrek Íslendinga í íþróttum á alþjóðavettvangi.

    ÍBR festir kaup á bragga sem hernámsliðið notaði sem íþróttahús á stríðsárunum. Húsið fær nafnið Hálogaland og verður þegar í stað miðstöð inniíþrótta í Reykjavík.

    Alþingi samþykkir frumvarp um byggingu Æskulýðshallar í Reykjavík. Í húsinu skyldu meðal annars vera íþróttavellir, vélfryst skautasvell, bókasafn og skrifstofu- og félagsaðstaða fyrir íþróttafélög og samtök ungs fólks.

  • 1947
    Hópmynd af handboltamönnum úr Vikingi.
    Handboltamenn úr Víkingi.

    Albert Guðmundsson gerist atvinnumaður í knattspyrnu fyrstur Íslendinga.

  • 1948
    Fólk á skautum inn í litlum bragga. Fyrsta innanhússkautasvell landsins var útbúið í litlum bragga við Snorrabraut skömmu eftir að heimsstyrjöldinni lauk.
    Fyrsta innanhússkautasvell landsins var útbúið í litlum bragga við Snorrabraut skömmu eftir að heimsstyrjöldinni lauk. Reksturinn varð skammlífur.

    Bandalag æskulýðsfélaga í Reykjavík, BÆR, er stofnað af æskulýðsfélögunum í bænum og fjórtán íþróttafélögum. Tilgangurinn er að þrýsta á um byggingu æskulýðshallar.

    ÍBR ræður sinn fyrsta framkvæmdastjóra, Sigurð Magnússon, sem gegnir starfinu til 1954. Hluti af verkefnum hans var rekstur íþróttahússins Hálogalands og að tryggja að aldrei yrðu tvö íþróttamót eða keppnir í gangi á sama tíma í bænum.

    Íslendingar senda keppendur á vetrarólympíuleika í fyrsta sinn. Þeir eru haldnir í svissneska fjallabænum St. Moritz.

  • 1949
    Jarðvegsframkvæmdir við íþróttasvæðið í Laugardal.
    Jarðvegsframkvæmdir við íþróttasvæðið í Laugardal.

    Knattspyrnufélagið Þróttur er stofnað í gömlum herbragga við Ægissíðu. Starfssvæði þess er á Grímstaðaholti í Vesturbæ fyrstu tvo áratugina. 

  • 1950
    Skopmyndateiknari Spegilsins gantaðist með komu sænsks handboltaliðs til Íslands. Á skopmynd stendur: Handknattleikur "Pressu"-lið keppir við "Svía"-liðið. Skjáskot frá timarit.is
    Skopmyndateiknari Spegilsins gantaðist með komu sænsks handboltaliðs til Íslands.

    Skíðalyfta er sett upp við Skíðaskálann í Hveradölum. Hún þykir mikið undratæki og flytur skíðafólk í 170 metra hæð á einni mínútu.

Ungur strákur stekkur hástökk, 26.06.1959, ljósmyndari Gunnar Rúnar.

1951-1960 Þjóðarstolt

Íslendingar reyna að fóta sig í veröldinni sem nýsjálfstæð þjóð. Óvænt afrek á íþróttasviðinu valda ofsakæti og bylgju þjóðarstolts. Fátt þjappar þjóðinni betur saman en þátttaka í alþjóðlegri keppni, svo sem í sundi þar sem hinar norrænu þjóðarinnar eiga sér ekki viðreisnar von.

  • 1951
    Ríkharður Jónsson leggur boltann í netið.
    Ríkharður Jónsson.

    Sigurdagurinn mikli í íslenskri íþróttasögu, 29. júní. Íslenska landsliðið vinnur gríðarlega óvæntan 4:3 sigur á Svíum á Melavelli, en sænska liðið hafði árið áður hafnað í þriðja sæti á heimsmeistaramótinu. Ríkharður Jónsson gerði öll mörk Íslands, en Svíarnir voru vissulega óvanir því að leika á malarvelli.

    Meðan á leiknum stóð bárust þær fregnir að íslenska frjálsíþróttalandsliðið hefði sigrað Dani og Norðmenn í landskeppni. Þjóðin fór í sigurvímu og er talið að þessir atburðir hafi gert það að verkum að íslensk þjóðerniskennd varð svo nátengd afrekum á íþróttasviðinu.

    Íslendingar taka þátt í Samnorrænu sundkeppninni og vinna með fáheyrðum yfirburðum. Fyrirkomulagið er á þá leið að allir landsmenn sem synda 200 metra eru skráðir. Sundæði braust út í landinu og þegar yfir lauk hafði fjórði hver Íslendingur tekið þátt samanborið við 2-3% þátttöku í hinum löndunum.

    Mánudagsblaðið kvartar yfir íþróttum kvenna. Blaðamaður skiptir íþróttagreinum í tvennt: fegrandi eða afskræmandi. Í fyrri flokknum væru fimleikar, bogfimi og baksund, sem konur gætu stundað með sómasamlegum hætti. Í hinum flokknum væru hópíþróttir, allar greinar sem kölluðu á hlaup og flestar sundtegundir. Að mati greinarhöfundar gætu skíðaíþróttir sloppið til, enda mætti finna smekklega skíðabúninga.

    Efnt er til Íslandsmóts í hjólreiðum, þar sem farinn er 33 km. hringur umhverfis Akrafjall. Sjö hjólagarpar taka þátt í keppninni en ekki varð framhald af slíkum hjólamótum að sinni.

  • 1952
    Arnar Clausen og frakkinn Ignace Heinrich.
    Tugþrautareinvígi Arnar Clausen og frakkans Ignace Heinrich

    ÍR kaupir Tívolíið í Vatnsmýrinni í fjáröflunarskyni. Tívolíið var einhver helsti samkomustaður Reykvíkinga og vinsæll veitinga- og skemmtistaður. Fjárfesting þessi skilaði góðum hagnaði í fyrstu, en kallaði á mikið viðhald og reyndist félagið að lokum þungur baggi.

    Íþróttahátíð er haldin vegna 40 ára afmælis ÍSÍ. Boðið er upp á fjölda íþróttagreina, þar á meðal bæjarkeppni milli Reykjavíkur og Stykkishólms í badminton sem vekur mikla athygli. Stykkishólmur var um árabil helsta vígi badmintonþróttarinnar á Íslandi.

    Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra lætur endurskoða áfengislöggjöfina. Þar með var tekið fyrir það að félagasamtök gætu fengið tímabundin áfengisleyfi fyrir auglýstar skemmtanir líkt og verið hafði um nokkurra ára skeið.

    Tímabundnu áfengisleyfin höfðu verið misnotuð miskunnarlaust þar sem félög, einkum íþróttafélög, voru að nafninu til sögð halda dansleiki á skemmtistöðum, jafnvel oft í mánuði. Í raun tengdust félögin þessum skemmtunum ekki á nokkurn hátt, en fengu góða þóknun frá veitingamönnunum fyrir.

    Miklar deilur voru um þessar fjáröflunarleið innan íþróttahreyfingarinnar. Sumir voru alfarið á móti henni þar sem ekki væri sæmandi að tengja nöfn íþróttafélaga við svallsamkomur en aðrir svöruðu því til að félögin skorti fé og að þessar tekjur þjónuðu góðum málstað.

  • 1953
    Sigurgeir Guðmannsson stendur fyrir framan íþróttahús KR við Kaplaskjól.
    Sigurgeir Guðmannsson stendur fyrir framan íþróttahús KR við Kaplaskjól.

    Víkingur fær úthlutað félagssvæði í Smáíbúðahverfinu. Fyrir vikið er horfið frá fyrri áformum um að koma sér upp aðstöðu í Vatnsmýrinni.

    Íþróttahús KR er tekið í notkun. Það er 16x32 m að flatarmáli og þar með stærsta íþróttahús landsins utan Keflavíkurflugvallar.

    Íbúar í Vesturbæ Reykjavíkur og Kvennaskólastúlkur hefja fjársöfnun meðal Reykvíkinga til að koma upp sundlaug í hverfinu. Söfnunin rekur á eftir bæjaryfirvöldum að ráðast í framkvæmdir. Peningarnir sem söfnuðust voru síðar nýttir til að kaupa listaverk í anddyri Vesturbæjarlaugar og forláta fiskabúr.

  • 1954
    Sundkappar í Sundhöll Reykjavíkur.
    Sundkappar í Sundhöll Reykjavíkur.

    Sigurgeir Guðmannsson er ráðinn framkvæmdastjóri ÍBR og gegnir því starfi næstu 42 árin.

    Efnt er á ný til Norrænu sundkeppninnar. Íslendingar hafa titil að verja frá árinu 1951 en verða afar ósáttir við reglur keppninnar, sem þeir telja hannaðar til að klekkja á sér. Sigurvegarinn yrði sú þjóð sem sýndi hlutfallslega mesta fjölgun þátttakenda frá síðustu keppni.

    Íslenskum þátttakendum fjölgaði um 6% frá fyrra skipti og báru landsmenn höfuð og herðar yfir hinar Norðurlandaþjóðirnar, en Svíar töldust þó sigurvegarar keppninnar. Alls syntu 38.154 Íslendingar 200 metrana, elsti sundgarpurinn var 83 ára karl en yngst voru þrjú fjögurra ára börn.

  • 1955
    Körfubolti í Hálogalandi.
    Körfubolti í Hálogalandi

    Mænuveikisfaraldur brýst út í Reykjavík. Borgarlæknir fyrirskipar að íþróttaæfingar falli niður og haustmótum í knattspyrnu og öllum mótum í innigreinum var aflýst eða frestað til áramóta.

  • 1956
    Leikur KR og Lokomótíf frá Moskvu árið 1956, lokatölur 13-2 fyrir gestum.
    Leikur KR og Lokomótíf frá Moskvu árið 1956, lokatölur 13-2 fyrir gestum.

    Vilhjálmur Einarssonar hlýtur silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne. Hann er einnig valinn Íþróttamaður ársins af samtökum íþróttafréttamanna í lok árs, þegar sá titill er veittur í fyrsta sinn.

    Alþingi bannar hnefaleika með lögum. Íþróttahreyfingin ákveður að una banninu. Margir þeirra sem æft höfðu hnefaleika svipast um eftir nýrri íþróttagrein og hefjast skipulagðar æfingar á júdó í kjölfarið.

  • 1957
    Merki ÍBR eftir Halldór Pétursson frá árinu 1954.
    Merki ÍBR eftir Halldór Pétursson frá árinu 1954.

    Handknattleikssamband Íslands er stofnað. Fram að því höfðu ÍBR og Handknattleiksráð Reykjavíkur séð um öll landsliðsmál og sett saman úrvalslið Reykjavíkur til að keppa við erlend handboltalið.

    Gerð er tilraun með að útbúa skautasvell á Melavelli. Tiltækið slær í gegn og um langt árabil verður svellið á Melavellinum ómissandi hluti af vetrarskemmtunum Reykvíkinga.

    Samþykkt er að stefna að byggingu höfuðsstöðva ÍBR í Laugardal við hliðina á Laugardalshöllinni. Fyrirhugað er sjö hæða stórhýsi með gistiheimili, mötuneyti og skrifstofum fyrir öll sérráð ÍBR sem og önnur sérsambönd innan ÍSÍ. Fjárfestingaryfirvöld kunnu lítt að meta þessar stórhuga tillögur og var umsóknum um byggingarleyfi ítrekað hafnað.

    Íslendingar og Norðmenn mætast í knattspyrnulandsleik á hálfbyggðum Laugardalsvelli. Völlurinn sjálfur er ekki vígður fyrr en tveimur árum síðar.

  • 1958
    Íþróttamaður á þrekhjóli.
    Íþróttamaður á þrekhjóli.

    Eyjólfur Jónsson, betur þekktur sem Eyjólfur sundkappi, syndir milli Reykjavíkur og Akraness. Sundafrek hans vöktu mikla athygli á þessum árum en af öðrum sjósundum hans mætti nefna Drangeyjarsund, sund frá Hrísey til Dalvíkur og milli lands og Vestmannaeyja. Þá gerði Eyjólfur fyrstur Íslendinga tilraunir til að synda yfir Ermarsund.

    ÍBR festir kaup á þrekhjóli til að mæla úthald íþróttamanna. Athygli vekur að leikmenn handboltalandsliðsins reynast ekki í nógu góðri þolæfingu og kveikir það umræður um ómarkvissa þjálfun íslensks íþróttafólks.

    Múgur og margmenni mætir á Melavöllinn til að fylgjast með Vilhjálmi Einarssyni etja kappi í þrístökki við hinn brasilíska Da Silva, sem sigraði hann á Ólympíuleikunum tveimur árum fyrr. Að þessu sinni hefur Vilhjálmur betur og Da Silva tapar sinni fyrstu keppni í sjö ár.

    Þrátt fyrir áhorfendafjöldann reynast mótshaldarar ekki hafa efni á farmiðanum aftur heim fyrir Brasilíumanninn. Niðurstaðan verður sú að þeir Vilhjálmur halda í keppnisferð til Svíþjóðar til að safna fyrir fargjaldinu!

  • 1959
    Laugardalshöllin í byggingu.
    Laugardalshöllin í byggingu.

    Framkvæmdir hefjast við Laugardalshöll, þremur árum eftir að ákvörðunin um byggingu hennar er tekin. Ekki er þó sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Bygging hússins og fjármögnun þess reynist miklu tímafrekari en áætlað hafði verið. Verkið er líka flókið, þannig var talið að þak hallarinnar væri stærsta steinsteypta bogaþak í heimi.

  • 1960
    Skautahlaupari á Reykjavíkurtjörn.
    Skautameistaramót Íslands á Tjörninni í Reykjavík.

    Bikarkeppni KSÍ er haldin í fyrsta sinn. Mótið fer að mestu leyti fram að afloknu Íslandsmóti og leggja félögin mismikla áherslu á það í fyrstu. Með tilkomu bikarkeppninnar dró mjög úr áhuga á haustmóti Knattspyrnuráðs Reykjavíkur sem hafði um langt árabil verið aðalkeppni fótboltamanna á haustin.

Íþróttafólk myndar hringi á Laugardalsvelli.

1961-1970 Mannvirki

Íþróttalífi landsmanna er kippt inn í nútímann með vígslu stórra og nýtískulegra íþróttamannvirkja. Laugardalsvöllur hafði verið tekið notkun skömmu fyrr en á þessum áratug bætast meðal annars við Laugardalshöll, tvær stórar almenningssundlaugar og nýr golfvöllur. Mikilvæg fjáröflunarleið lítur dagsins ljós með tilkomu getrauna.

  • 1961
    Vilhjálmur Einarsson, mynd fengin frá ÍSÍ.
    Vilhjálmur Einarsson.

    Vesturbæjarlaug tekin í notkun. Á laugarsvæðinu eru einnig settar upp litlar setlaugar sem fá þegar nafnið „heitir pottar“. Pottar þessir voru útbúnir nánast á laun og í leyfisleysi borgaryfirvalda sem fannst nóg um byggingarkostnað laugarinnar og sáu engan tilgang með slíku fyrirbæri.

    Íþróttaráð Reykjavíkur er stofnað. Það tekur við verkefnum vallarstjórnar sem rekið hafði Melavöllinn, en fær einnig víðtækara hlutverk.

    Vilhjálmur Einarsson setur heimsmet í hástökki án atrennu, 1,75 cm, á innanfélagsmóti í Íþróttahúsi ÍR við Túngötu. Vinsældir keppna í atrennulausum stökkum hafa minnkað verulega í seinni tíð og langt er síðan hætt var að skrá heimsmet í þeim.

  • 1962
    Félagsheimili UMFR í Laugardal. Hýsir dag starfsemi KFUM.
    Félagsheimili UMFR í Laugardal. Hýsir dag starfsemi KFUM.

    Ungmennafélag Reykjavíkur er lýst gjaldþrota. Félagið var stofnað árið 1906 og kom talsvert að sögu íþróttamála í Reykjavík, einkum fyrstu árin. UMFR lognaðist út af á þriðja áratugnum en hafði verið endurvakið árið 1941. Á sjötta áratugnum hóf félagið byggingu félagsheimilis við Holtaveg í Laugardal sem reyndist því að lokum ofviða, en KFUM festi kaup á húsnæðinu.

  • 1963
    Golfklúbbur Reykjavíkur. Horft yfir völlinn og klúbbhúsið.
    Golfklúbbur Reykjavíkur.

    Alþingi samþykkir að 45 aurar skuli greiddir af sölu hvers vindlingapakka, sem renna skyldu til Íþróttahreyfingarinnar og Slysavarnafélags Íslands.

    Fyrsta lyftingamótið er haldið á Íslandi. Keppt er í einni grein: jafnhendingu, þar sem níu keppendur í fjórum þyngdarflokkum eigast við.

    Byrjað er að leika á nýjum golfvelli Golfklúbbs Reykjavíkur í Grafarholti. Völlurinn hefur hýst Norðurlandameistaramót nokkrum sinnum sem og Evrópumeistaramót unglinga og öldunga.

  • 1964
    Menn við byggingu Vesturbæjarlaugar.
    Menn við byggingu Vesturbæjarlaugar.

    Íslendingar verða Norðurlandameistarar kvenna í handbolta, en mótið er haldið á Laugardalsvelli. Sigrinum er innilega fagnað og handknattleikskonan Sigríður Sigurðardóttir er valin Íþróttamaður ársins fyrst kvenna. Engu að síður mistekst að byggja ofan á árangurinn. Ísland sendir ekki lið á heimsmeistaramótið árið eftir og landsliðið er í raun leyst upp.

    KR tekur þátt í Evrópukeppni í knattspyrnu fyrst íslenskra liða og mætir ensku meisturunum í Liverpool sem einnig þreyta frumraun sína í keppninni.

  • 1965
    Fótboltavöllurinn Fram í Skipholti.
    Fótboltavöllurinn Fram í Skipholti.

    Framarar bjóða stórliðinu Baník Karviná frá Tékkóslóvakíu til landsins. Þegar líður að heimsókninni vakna menn við vondan draum, þar sem enn vantar talsvert upp á að Laugardalshöllin sé tilbúinn. Með því að safna vöskum hópi sjálfboðaliða og vinna nótt við nýtan dag tekst handknattleiksmönnum að gera höllina leikfæra og vígsluleikur hennar er milli Karviná og Reykjavíkurúrvalsins.

  • 1966

     Danska karlalandsliðið í handknattleik mætir Íslendingum í Laugardalshöll. Aðeins var selt í stæði og troðfylltu 3.600 manns höllina. Miðar voru einvörðungu í boði í Bókaverslun Lárusar Blöndal og seldust upp á tveimur dögum.

    Landskeppni Íslendinga og Dana haldin í Laugardalslaug. Laugin er þó ekki opnuð almenningi fyrr en sumarið 1968.

  • 1967

    Myrkur dagur í íþróttasögunni þegar Íslendingar tapa fyrir Dönum, 14:2, á Idrætsparken í Kaupmannahöfn. Fyrir leikinn hafði ríkt mikil bjartsýni um að okkur myndi loksins takast að sigra Dani.

    Knattspyrnufélag Seláss- og Árbæjarhverfis er stofnað. Nafnið þótti snemma óþjált og var því síðar breytt í Íþróttafélagið Fylkir. Appelsínugulur er valinn sem einkennislitur félagsins, enda hafði einn forsvarsmanna heyrt að vísindamenn hefðu sýnt fram á að sá litur sæist best úr fjarska.

    Úrvalslið Skautafélags Reykjavíkur og Akureyrir mætast í fyrstu eiginlegu ísknattleiksviðureiginni. Sögu ísknattleiksæfinga í Reykjavík má þó rekja til ársins 1951 þegar íþróttakennarinn Ewald Mikson hóf að leiðbeina í greininni, en hann átti að baki landsleiki fyrir Eistland.

    Kastklúbbur Reykjavíkur er stofnaður. Tilgangur félagsins er æfingar á ýmsum keppnisgreinum flugukasts.

  • 1968

    Áhorfendamet sem stóð í áratugi er sett þegar 18.243 mæta á leik Vals og Benfica í Evrópukeppni meistaraliða í knattspyrnu. Flestir komu til að sjá portúgalska snillinginn Eusebio og reiknað var með stórsigri gestanna. Valsmenn pökkuðu í vörn og niðurstaðan varð markalaust jafntefli. Hrifnæmur íþróttafréttamaður sló þá upp fréttinni: „Valur vann Benfica 0:0!“

    Íþróttabandalag Reykjavíkur kemur upp sal með níu borðtennisborðum í anddyri Laugardalshallar. Gestir og gangandi gátu tekið borðin á leigu og ýtti það mjög undir vöxt borðtennisíþróttarinnar.

  • 1969
    Getraunaseðill frá 1970. Knattspyrnugetraunir nutu mikilla vinsælda árið 1970. Morgunblaðið birti getraunaspá fjölda erlendra og innlendra dagblaða. Skjáskot frá timarit.is
    Getraunaseðill frá 1970. Knattspyrnugetraunir nutu mikilla vinsælda árið 1970. Morgunblaðið birti getraunaspá fjölda erlendra og innlendra dagblaða.

    Þróttarar vígja malarvöll og félagsheimili á nýju svæði sínu í Sæviðarsundi. Félagið hafði fengið úthlutað landi þar á 25 ára afmæli sínu árið 1964. Félagið yfirgaf þar með Vesturbæinn endanlega en það var stofnað á Grímstaðaholti.

    ÍSÍ opnar íþróttamiðstöð á Laugarvatni. Hún verður geysivinsæl til æfinga fyrir íþróttafólk og keppnisflokka. Þá þegar kviknar áhugi hjá ÍBR að koma sér upp svipaðri aðstöðu. Jörðin Reykjanes í Grímsnesi er loks keypt í þessu skyni árið 1975 en þau kaup áttu langan aðdraganda.

    ÍSÍ, ÍBR og KSÍ hefja saman rekstur knattspyrnugetrauna, en árin á undan höfðu nokkur Reykjavíkurfélög staðið fyrir slíkri starfsemi án þess að hafa í raun til þess nokkurt leyfi. Fyrri tilraunir til reksturs getrauna höfðu  gengið brösulega, meðal annars vegna þess hversu lítið íslenskt íþróttaáhugafólk þekkti til hinna erlendu liða. Sama ár hóf Ríkissjónvarpið hins vegar að sýna Enska boltann í umsjón Bjarna Felixsonar, sem þjóðin tók þegar í stað ástfóstri við. Sölukerfi getraunanna var nokkuð þungt í vöfum og var salan því að langmestu leyti bundin við Reykjavík.

  • 1970
    Ingólfur við búðarborðið. Sportvöruverslun Ingólfs Óskarssonar opnaði árið 1970 og varð þegar ein vinsælasta íþróttaverslun landsins. Ingólfur var einn kunnasti handknattleiksmaður þjóðarinnar.
    Sportvöruverslun Ingólfs Óskarssonar opnaði árið 1970 og varð þegarein vinsælasta íþróttaverslun landsins. Ingólfur var einn kunnasti handknattleiksmaður þjóðarinnar.

    Fyrsta Íslandsmótið í blaki fer fram, en aðeins er keppt í karlaflokki. Blakið hafði helst verið stundað í Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni og voru sigursælustu liðin fyrstu árin ýmist þaðan eða skipuð gömlum Laugvetningum.

    Listahátíð í Reykjavík stendur fyrir tónleikum með Led Zeppelin í Laugardalshöll. Næstu áratugina var húsið vettvangur allra stærstu rokk- og popptónleika á landinu.

    Íþróttahúsið Hálogaland er rifið vegna vegaframkvæmda. Þótt allri keppni í meistaraflokkum hafi verið hætt í húsinu við opnun Laugardalsvallar hafði það áfram nýst til æfinga og fyrir yngri flokka. Niðurrifið jók því enn á húsnæðiseklu reykvísks íþróttafólks.

Handboltakonur í leik Fram og Víkings.

1971-1980 Fjölbreytni

Reynt er með markvissum hætti að vinna gegn einsleitni íþróttahreyfingarinnar, sem til þessa hefur einblínt á afreksíþróttir ungra karlmanna. Nýjar og óhefðbundnar íþróttagreinar koma fram á sjónarsviðið. Almenningsíþróttir með áherslu á almenna heilsurækt hefjast, íþróttafélög fatlaðra eru stofnuð og farið er að leita leiða til að styrkja stöðu kvenna í íþróttum.

  • 1971
     Merki trimmátaks ÍSÍ. Skjáskot frá timarit.is
    Merki trimmátaks ÍSÍ.

    Siglingaklúbburinn Brokey er stofnaður í Reykjavík. Stofnendur eru eldri félagar í Siglunesi, siglingafélagi sem Æskulýðsráð reykjavíkur starfrækti og sá um að skipuleggja siglingarnámskeið í Fossvogi fyrir unglinga á sumrin. Núverandi heiti félagsins er Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey.

    Flóðljós eru sett upp á Melavelli. Þau eru notuð í fyrsta sinn í bikarúrslitaleik karla þann 9. nóvember. Þar fögnuðu Víkingar sigri og urðu þar með fyrsta og eina liðið úr næstefstu deild til að vinna bikarkeppnina.

    ÍSÍ ræðst í Trimm-herferð sína um land allt. Hún leiðir til mikillar vakningar á sviði almenningsíþrótta á næstu árum. Fram að því höfðu þeir fáu einstaklingar sem stunduðu skokk eða heilsurækt á almannafæri verið álitnir sérvitringar eða furðufuglar.

  • 1972
    Skíðaskáli í Bláfjöllum.
    Skíðaskáli í Bláfjöllum.

    Bláfjöll eru lýst fólkvangur að frumkvæði ÍBR og þau jafnframt ákveðin sem framtíðarskíðaland höfuðborgarsvæðisins. Bláfjallanefnd er stofnuð með þátttöku þrettán sveitarfélaga.

    Lög um getraunir eru endurskoðuð á Alþingi. Inn í lögin er sett klausa um einkarétt Íslenskra getrauna á rekstri talnagetrauna. Það leyfi varð síðar grunnurinn að stofnun Lottósins.

    Íslandsmót kvenna í knattspyrnu haldið í fyrsta sinn. Evrópska knattspyrnusambandið hafði um nokkrum árum fyrr sent aðildarsamböndum sínum hvatningu um að stuðla að fótbolta kvenna, en um svipað leyti höfðu handboltakonur í nokkrum Reykjavíkurliðanna byrjað óformlegar knattspyrnuæfingar.

  • 1973

    Íþróttafélagið Leiknir er stofnað í Hóla- og Fellahverfi, sem þá gekk raunar undir heitinu Breiðholt III. Aðstöðuleysi háði félaginu lengi en metnaðinn skorti ekki. Þannig stofnuðu Leiknismenn meistaraflokk í handbolta þegar á öðru starfsári sínu, fengu íþróttakappann Hermann Gunnarsson sem þjálfara og komust strax í undanúrslit bikarkeppninnar.

    Þvottahús Reykjavíkur við Þvottalaugarnar í Laugardal skemmist illa í óveðri. Í kjölfarið er rekstri þvottahússins hætt, en kraftlyftingamenn fá í staðinn afnot af húsnæðinu sem fékk snemma nafnið „Jakaból“. Það var helsta miðstöð lyftingastarfsemi í Reykjavík í um áratug.

    Karatefélag Reykjavíkur er stofnað af fáeinum einstaklingum sem stundað höfðu æfingar í greininni um nokkurra ára skeið. Tveimur árum síðar eru félagsmenn orðnir um 500 og biðlistar eftir að komast á nýliðanámskeið.

  • 1974
    Íþróttahátíð á Laugardalsvelli.
    Íþróttahátíð á Laugardalsvelli.

    Skipan ÍTR, Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, er breytt á þann hátt að allir ráðsliðar eru kjörnir af flokkunum í borgarstjórn. ÍBR, sem áður átti fulla aðild, fær áheyrnarfulltrúa eftir breytinguna.

    Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík er stofnað. Árið eftir er fyrsta íþróttamótið haldið á vegum þess, þar sem boccia og bogfimi voru fyrirferðarmestu greinarnar.

    Íþróttahátíð í Reykjavík er haldin í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar. Efnt er til borgakeppna í ýmum greinum þar sem úrvalslið Reykjavíkur keppir á móti Osló í handbolta, Stokkhólmi í sundi, Kaupmannahöfn í fótbolta, Helsinki í körfubolta og Þórshafnarbúum í badminton og borðtennis.

  • 1975
    Íþróttavöllur Ármanns við Miðtún.
    Íþróttavöllur Ármanns við Miðtún.

    Auglýsingarspjöld eru sett upp í Laugardalshöllinni í fyrsta sinn sem fjáröflun fyrir handknattleiksdeildir Reykjavíkurfélaganna. Slíkar auglýsingar munu hafa verið nýjung á íþróttavöllum hér á landi.

    Kínverskur fimleikaflokkur sýnir listir sínar í Reykjavík í boði ÍBR og Kínversk-íslenska menningarfélagsins. Um 12 þúsund manns sjá sýningar hópsins sem vekja aðdáun og skila góðum hagnaði.

    Alþingi samþykkir að bæta slysatryggingum vegna íþróttaiðkunar við lögin um almannatryggingar. Ákveðið þó að leggja ekki niður slysatryggingarsjóði ÍBR sem og annarra héraðssambanda en slíkir sjóðir höfðu fengið ákveðinn hundraðshluta af aðgangseyri á íþróttakappleiki

  • 1976
    Íþróttahús TBR í Laugardal. Vellir innanhúss.
    Íþróttahús TBR í Laugardal.

    Íþróttahús TBR tekið í notkun í Laugardalnum austanverðum.

  • 1977

    Siglingaklúbburinn Brokey eignast fyrsta félagsbátinn með tilstyrk ÍTR. Um er að ræða kænu sem nefnd er Ólafur eftir Ólafi Sigurðssyni öðrum formanni ÍBR.

    ÍSÍ stofnar Afreksmannasjóð með stuðningi ríkisins til að stuðla að þátttöku íþróttamanna í verkefnum erlendis. Síðar er heimilað að styrkja sérsambönd og loks einstaklinga.

  • 1978

    Vélhjólaíþróttaklúbburinn, VÍK er stofnaður.

    Frjálsíþróttavöllurinn í Laugardal er vígður með Reykjavíkurleikunum 9. og 10. ágúst. Ýmsar erlendar frjálsíþróttastjörnur koma til landsins í tengslum við mótið.

    Alþjóðahandknattleikssambandið heldur þing sitt í Reykjavík. Þetta er fyrsta alþjóðaráðstefnan um íþróttamál sem fram fer á Íslandi.

  • 1979

    Valbjörn Þorláksson setur þrjú heimsmet í jafnmörgum greinum á heimsmeistaramóti öldunga í frjálsum íþróttum. Til að heiðra afrek hans er ákveðið að nefna frjálsíþróttavöllinn í Laugardal eftir honum.

    Íþróttamaður Reykjavíkur er útnefndur í fyrsta sinn. Guðmundur Sigurðsson lyftingamaður í Ármanni hlýtur titilinn.

    Kvennaráðstefna ÍSÍ er haldin. Markmið hennar er að leita leiða til að auka hlut kvenna í íþróttastarfi, en um þær mundir var . Áætlað var að 30% íþróttafólks væru konur.

  • 1980
    Mynd af húsi íþróttamiðstöðvar ÍBR í Grímsnesi sem aldrei tókst að ljúka.
    Íþróttamiðstöð ÍBR í Grímsnesi sem aldrei tókst að ljúka.

    Kayakklúbburinn er stofnaður í Reykjavík. Áætlað var að um tíu manns stunduðu íþróttina víðsvegar á landinu.

    Karlalið Valsmanna kemst alla leið í úrslitaleikinn í Evrópukeppni meistaraliða í handbolta en tapar þar fyrir vestur-þýsku meisturunum.

    Byggingarframkvæmdir ÍBR hefjast að Reykjanesi í Grímsnesi hefjast. Þar tryggði bandalagið sér dágott land með uppbyggingu og rekstur æfingabúða í huga. Verðbólga og peningaskortur setja mark sitt á verkefnið frá upphafi.

    Bandaríkin og ýmis stuðningslönd þeirra ákveða að sniðganga Ólympíuleikana í Moskvu vegna innrásar Sovétríkjanna í Afganistan. Nokkur umræða verður um það hvort Ísland skuli skipa sér í þann flokk, en niðurstaða íþróttahreyfingarinnar er sú að ekki skuli blanda saman íþróttum og stjórnmálum. Þó er ákveðið að afþakka laust sæti í handboltakeppni leikanna.

Vatnsrennibrautin við sundlaugina í Laugardal 1988. Skjáskot frá tímarit.is

1981-1990 Landnám

Reykjavíkurborg þenst út og yngsta stóra Reykjavíkurfélagið er stofnað í Grafarvogi. Í öðrum útjaðri borgarinnar er fullkomin reiðhöll tekin í notkun og í Laugardal rísa voldug vatnsrennibraut og skautasvell. Áratugurinn einkennist af tilkomu nýrra íþróttagreina sem margar hverjar hljóta mikla útbreiðslu.

  • 1981
    Fram og KR eigast við á Íslandsmóti karla í handbolta utanhúss árið 1981. Skömmu síðar var hætt að keppa í þeirri íþrótt.
    Fram og KR eigast við á Íslandsmóti karla í handbolta utanhúss árið 1981. Skömmu síðar var hætt að keppa í þeirri íþrótt.

    Lyfjaeftirlit íþróttamanna hefst. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir notkun árangursbætandi efna að viðlögðum refsingum.

    Ísland leikur fyrsta kvennalandsleik sinn í knattspyrnu. Mótherjarnir eru Skotar, sem vinna 3:2 í Kilmarnock.

    Reykjavíkurborg kaupir 8% eignarhlut ÍBR í Laugardalshöllinni. Hagnaðinum af sölunni er að mestu varið til uppbyggingar hinna fyrirhugðu íþróttabúða í Grímsnesinu.

    Valsmenn leika heimaleiki sína á Íslandsmótinu í knattspyrnu á eigin velli að Hlíðarenda. Fram að því höfðu öll Reykjavíkurliðin leikið á Laugardalsvelli.

  • 1982

    Trimmdagurinn er haldinn sunnudaginn 27. júní til að vekja athygli á gildi almenningsíþrótta. Íþróttafélög opna velli sína og hús fyrir almenningi og gestir sundstaða eru hvattir til að skrá sig, enda öðrum þræði um þátttökukeppni milli sveitarfélaga að ræða. Húsvíkingar reynast standa sig best í keppninni.

  • 1983

    Knattspyrnudómarar hóta verkfalli á miðju sumri. Deilt er um frímiða á kappleiki á íþróttavöllum í Reykjavík. Á síðustu stundu nást samningar milli ÍBR og Knattspyrnudómarafélagsins um að skráðir dómarar fái ókeypis aðgang gegn því að framvísa dómaraskírteini með mynd. Íslandsmótinu 1983 er því borgið.

  • 1984
    Gervigrasvöllur í Laugardal.
    Gervigrasið í Laugardal.

    Fyrsti gervigrasvöllur landsins er tekinn í notkun þegar gervigras er lagt á Hallarflötina svokölluðu framan við inngang Laugardalshallar. Þar með eru örlög Melavallarins ráðin og flóðljósin eru flutt þaðan og sett upp við gervigrasið árið eftir.

    Ekki gefst færi á að vígja nýja völlinn formlega haustið 1984, en í janúar 1985 tekst að skipuleggja með skömmum fyrirvara æfingarleik milli Reykjavíkurúrvalsins og enska liðsins Luton Town. Um 3.000 manns mæta í brunagaddi til að fylgjast með viðureigninni.

    Hestamannafélagið Fákur fær aðild að ÍBR eftir nokkurra ára baráttu. ÍSÍ hafði verið mjög hikandi við að samþykkja hestamannafélög innan sinna vébanda.

    Reykjavíkurmaraþon er haldið í fyrsta sinn með þátttöku 250 hlaupara. Áhugi frjálsíþróttamanna á þessari hlaupagrein hafði farið vaxandi og sumarið 1980 var hlaupið maraþon frá Kambabrún til Reykjavíkur. Frumkvæði að Reykjavíkurmaraþoninu kom ekki síður frá ferðaþjónustuaðilum sem vildu leita leiða til að laða nýja hópa ferðamanna til Reykjavíkur.

  • 1985

    Keiluhöllin í Öskjuhlíð opnar og leggur grunninn að keiluíþróttinni í landinu. Fram að því hafði einungis verið hægt að keppa í keilu í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli.

    Fyrstu smáþjóðaleikarnir eru haldnir í San Marínó. Ísland er meðal þátttökulanda frá upphafi. Íslendingar taka alvarlega fyrirmæli um að senda fámennan hóp og mæta bara með átján íþróttamenn en öll hin þátttökulöndin sendu stærri sveitir.

    Öryrkjabandalag Íslands hyggst efna til nýs peningahappdrættis: bókstafagetrauna. Íslenskar getraunir telja það skýrt brot á einkaleyfi sínu til reksturs talnagetrauna og óttast hrun í sölu getraunaseðla. Eftir hatrammar deilur sem rata inn í sali Alþingis heggur Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra á hnútinn. Íþróttahreyfingin og ÖBÍ komast að samkomulagi á árinu 1986 um að hefja saman rekstur á Lottóinu og er fyrst dregið í því í nóvember sama ár. Lottó verður á örskammri stundu eftirlætishappdrættisform þjóðarinnar.

  • 1986
    Auglýsing fyrir fyrsta Lottó-útdráttinn árið 1986, "Mundu eftir milljóninni!" Skjáskot frá timarit.is
    Happdrættisleikurinn Lottó hóf göngu sína árið 1986.

    Stytta af Gísli Halldórssyni eftir listakonuna Ragnhildi Stefánsdóttur er afhjúpuð á íþróttasvæðinu í Laugardal.

    Reykjavíkurleikarnir í knattspyrnu eru haldnir í tilefni af 200 ára afmæli borgarinnar. Auk íslenska landsliðsins kepptu lið Írlands og Tékkóslóvakíu á mótinu. Írar fóru nokkuð óvænt með sigur af hólmi en Íslendingar töpuðu báðum sínum leikjum.

  • 1987
    Friðarboðhlaup Sri Chinmoy, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur hleypur í fararbroddi með kyndilinn.
    Friðarboðhlaup Sri Chinmoy, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur hleypur í fararbroddi með kyndilinn.

    Reiðhöllin í Víðidal er tekin í notkun eftir tveggja ára byggingartíma. Hún er reist með framlagi hestamannafélaga, bænda og fjölda einstaklinga og fyrirtækja. Fyrstu árin var hún einn stærsti salur landsins og því eftirsótt fyrir ýmis konar samkomur sem ekki tengdust hestamennsku, svo sem rokktónleika.

    Alþjóðlegt friðarboðhlaup umhverfis Ísland, sem kennt er við Sri Chinmoy, hefst við Höfða og lýkur sextán dögum síðar í Reykjavík.

  • 1988

    Yngsta borgarhverfið, Grafarvogurinn, eignast sitt eigið íþróttafélag við stofnun Fjölnis. Hugmyndir Reykjavíkurborgar um að afstýra fjölgun íþróttafélaga með því að flytja þangað eitt af rótgrónari félögunum ná ekki fram að ganga. Athygli vakti að Fjölnir var ungmennafélag og fékk sem slíkt aðild að UMFÍ.

    Á stofnfundinum var heiti félagsins ákveðið Ungmennafélagið Grafarvogur en sú nafngift var talin geta valdið misskilningi þar sem skammstöfunin yrði þá sú sama og hjá Ungmennafélagi Grindavíkur. Var þá leitað aftur í tillögupottinn frá stofnfundinum og Fjölnisnafnið dregið fram.

    Vatnsrennibraut er tekin í notkun við Laugardalslaugina, ungviði Reykjavíkur til mikillar gleði. Eitt slíkt mannvirki var fyrir í landinu, við Hótel Örk í Hveragerði.

  • 1989

    Íslenska karlalandsliðið fær gullverðlaunin á B-keppninni í handbolta. Handboltafár brýst út í landinu.

  • 1990
    Auglýsing úr Tímanum fyrir fyrsta Kvennahlaup ÍSÍ 1990. Skjáskot frá timarit.is
    Fyrsta kvennahlaup ÍSÍ fór fram 1990. Landsamband framsóknarkvenna hvatti flokkskonur til þátttöku.

    Kvennahlaup ÍSÍ er haldið í fyrsta sinn í tengslum við Íþróttahátíð sambandsins. Fjölmennasta hlaupið fór fram í Garðabæ, en einnig var hlaupið á sjö öðrum stöðum á landinu.

    Æfingar í taekwondo hefjast á Íslandi. Reglur íþróttahreyfingarinnar heimiluðu ekki erlend heiti íþróttagreina og var því reynt að íslenska nafnið með því að tala um „kvondó“. Það nýyrði náði aldrei fótfestu.

    Vélfryst skautasvell í Laugardal er vígt í desembermánuði. Frá upphafi var gert ráð fyrir að byggt yrði yfir það. Við tilkomu skautasvellsins færist mikið kapp í skautaíþróttina og æfingar hefjast í nýjum skautagreinum, svo sem listhlaupi. Ísknattleiksfélagið Björninn er stofnað.

Hópmynd af keppendum frá Liechtenstein á Smáþjóðaleikunum 1997. Inn í miðjum hópnum stendur snjókarl með borða sem á stendur "Thank you Iceland! See you in Leichtenstein´99". Mynd frá ÍSI.

1991-2000 Gestgjafar

Íþróttahreyfingin tekur í vaxandi mæli þátt í alþjóðlegu samstarfi. Öflugir innviðir og fjárfesting í íþróttamannvirkjum gerir landið að fýsilegum kosti sem vettvangur hvers kyns móta. Smáþjóðaleikar eru haldnir í Reykjavík en stærsta verkefnið er þó heimsmeistarakeppnin í handbolta karla árið 1995.

  • 1991
    Knattspyrnukappinn Pele á Íslandi ásamt ungum iðkenda.
    Knattspyrnukappinn Pele á Íslandi ásamt ungum iðkenda.

    Íþróttafélag fatlaðra tekur í notkun íþróttahús sitt að Hátúni eftir átta ára byggingartíma. Æfingaraðstaða félagsins gjörbreytist.

    Íslenskar getraunir hefja fast samstarf við sænska fyrirtækið Tipstjänst, en sameiginlegir getraunaseðlar með Svíum höfðu verið prófaðir í tengslum við HM í fótbolta árið 1990 með góðum árangri. Vinningsupphæðir í getraunum hækka mikið við þetta og talsverður vöxtur verður í sölu þeirra í kjölfarið.

    Knattspyrnugoðsögnin Pelé kemur til Íslands í tengslum við átak um drengilegan leik og heimsækir fjölda knattspyrnuiðkenda hjá ýmsum félögum.

    Úttekt á umfjöllun um karla- og kvennaíþróttir í Morgunblaðinu leiðir í ljós að um 12,5% frétta fjalla um konur en 82% um karla. Hlutfall þetta var í takt við það sem tíðkaðist í öðrum Evrópulöndum og raunar ívið skárra.

  • 1992

    Miðnæturhlaup á Jónsmessu er haldið í fyrsta sinn. Það er sambland af fjölskylduviðburði og keppnishlaupi og stofnað til að skjóta styrkari stoðum undir rekstur Reykjavíkurmaraþonsins.

    Tartanhlaupabraut með átta brautum er vígð á Laugardalsvelli og flóðljós sett upp.

    Íþróttaiðkendum á Íslandi fækkar um fimmtung á einu bretti, úr 105 þúsund niður í 87 þúsund. Ástæðan er sú að byrjað er að skrá iðkendur með kennitölu og reynist fjöldinn í mörgum tilfellum gróflega ofmetinn. Líkleg skýring er sú að vegna Lottó-greiðslna höfðu félög haft beinan fjárhagslegan hag af því að oftelja félagsmenn sína. Tveimur árum síðar var enn lengra gengið í grisjuninni og fór tala íþróttamanna þá niður í 70 þúsund.

  • 1993

    Víkingalottó hefur göngu sína með samstarfi norrænu Lottó-fyrirtækjanna. Getspakir Íslendingar taka þessu nýja happdrætti opnum örmum.

  • 1994

    Árbæjarlaug er tekin í notkun. Við hönnun hennar er sérstaklega tekið mið af þörfum barna og fjölskyldna.

    Kvennalandsliðið í knattspyrnu kemst í úrslitakeppni Evrópumótsins í fyrsta sinn.

  • 1995

    Heimsmeistarakeppni karla í handbolta er haldin á Íslandi. HSÍ sótti árið 1988 um að halda mótið sem átti að fara fram 1994 með sextán landsliðum. Breytt skipulag gerði það að verkum að mótið hnikaðist til um ár og þátttökulöndin voru 24. Mótshaldið varð því dýrara en gert var ráð fyrir, auk þess Ísland sigldi inn í krappa efnahagslægð. Horfa þurfti frá áformum um að reisa nýja handboltahöll í tengslum við keppnina, heldur voru úrbætur á Laugardalshöllinni látnar duga.

  • 1996
    Vala Flosadóttir fyrsti Evrópumeistari sögunnar í stangarstökki kvenna á EM innanhús. Á myndinni sést hún halda á verðlaunapeningnum. Mynd frá ÍSÍ.
    Vala Flosadóttir fyrsti Evrópumeistari sögunnar í stangarstökki kvenna á EM innanhús.

    Vala Flosadóttir verður fyrst íslenskra kvenna Evrópumeistari í frjálsum íþróttum. Ekki hafði áður verið keppt í stangarstökki kvenna á Evrópumeistaramóti.

    Fyrstu níu holurnar á nýjum Korpúlfsstaðavelli eru teknar í notkun.

  • 1997

    Smáþjóðaleikarnir eru haldnir í Reykjavík í fyrsta sinn. Þátttakendur frá átta löndum keppa í tíu íþróttagreinum. Við setningarathöfnina á Laugardalsvelli ríður Sigurbjörn Bárðarson með Ólympíueldinn á hvítum hesti.

    Íþróttasamband Íslands og Íslenska Ólympíunefndin sameinast.

  • 1998
    Íshokkíleikur í Skautahöll Reykjavíkur.
    Íshokkíleikur í Skautahöll Reykjavíkur.

    Skautahöllin í Laugardal er tekin í notkun. Byggt er yfir skautasvellið sem þar var komið upp átta árum fyrr.

    Farið er í viðræður um mögulega sameiningu Fjölnis og Fram. Þær fara út um þúfur um leið og talið berst að málum eins og félagsheiti og lit á keppnistreyjum. Árið eftir er rætt um hvort sameina megi Fjölni og Val en niðurstaðan verður á sömu lund. Þrátt fyrir mikinn áhuga stjórnmálamanna á að sameina íþróttafélög reynast hefðin og sagan oftast nær yfirsterkari.

    Fram og KR stofna hlutafélög um rekstur meistaraflokka sinna í knattspyrnu. Vonir voru bundnar við að hlutafélagavæðingin myndi bylta rekstrarumhverfi fótboltans og gerðu útboðsgögnin ráð fyrir miklum hagnaði af sölu efnilegra leikmanna og afrekum í Evrópukeppni. Veruleikinn varð ekki í samræmi við þær væntingar.

  • 1999
    Skipt um yfirlag á gervigrasi í Laugardal.
    Skipt um yfirlag á gervigrasi í Laugardal.

    Tilraunir með snjóframleiðslu hefjast á skíðasvæðinu í Hamragili. Markmiðið er að lengja skíðaárið suðvestanlands þar sem snjóskortur hefur oft verið vandamál.

  • 2000
    Ylströndin í Nauthólsvík. Ungmenni standa á flotbryggju.
    Ylströndin í Nauthólsvík

    ÍBR og ÍTR senda frá sér skýrslu um skipulag íþróttamála á nýrri öld, sem gerir meðal annars ráð fyrir skiptingu borgarinnar í fjögur afrekssvæði, þar sem einungis einn afreksflokkur skyldi vera á hverju svæði. Slíkar sameiningarhugmyndir féllu í grýttan jarðveg hjá stuðningsfólki íþróttafélaganna og eru fá dæmi um að reykvísk félög hafi teflt fram sameiginlegu liði í meistaraflokki.

    Ylströndin í Nauthólsvík er opnuð almenningi. Stórátak í skólpmálum höfuðborgarsvæðisins gerði framkvæmdina mögulega en loka þurfti gömlu baðströndinni í Nauthólsvík árið 1968 vegna mengunar.

Loftmynd af íþróttasvæði Laugardalsins. Laugardalshöllin & við hliðina á henni sést Frjálsíþróttahöllin í byggingu, Skautahöllin, Laugardalsvöllur & Laugardalslaug.

2001-2010 Innviðir

Þenslutími er í íslensku efnahagslífi mestallan áratuginn, uns allt endar með ósköpum síðla árs 2008. Í góðærinu er ráðist í fjölmörg uppbyggingarverkefni sem nýtast íþróttafólki til framtíðar. Sparkvöllum er komið upp við flesta grunnskóla og víðar, yfirbyggðar hallir fyrir knattspyrnu, frjálsar íþróttir, sund og fleiri greinar líta dagsins ljós.

  • 2001

    ÍR-ingar eru fyrsta íslenska íþróttafélagið til að stofna dansdeild.

    Kayakklúbbur Reykjavíkur fær aðstöðu á Geldinganesi.

    ÍR-húsið við Túngötu er fært á Árbæjarsafn, þar sem það er endurgert og hýsir nú sýningu um sögu íþrótta í Reykjavík.

  • 2002
    Loftmynd af Egilshöll.
    Egilshöll

    Rey Cup er haldið í fyrsta sinn. Það er alþjóðlegt knattspyrnumót unglinga sem haldið er í Laugardalnum með veglegri umgjörð og hefur dregið til sín fjölda erlendra knattspyrnuliða auk heimamanna.

    Alþingi leyfir ólympíska hnefaleika að nýju.

    Fyrsti áfangi Egilshallar, knattspyrnusalurinn, tekinn í notkun. Reykjavíkurmótið í knattspyrnu færist í kjölfarið þangað og byrjar fyrr á árinu. Í seinni áföngum hússins bætast við skautahöll, skotæfingasvæði og fjöldi smærri íþróttasala fyrir ýmsar íþróttagreinar.

  • 2003
    Karen Björk Björgvinsdóttir og Adam Reeve hjá dansdeild ÍR, heimsmeistarar í samkvæmisdönsum standa saman með bikar á milli sín.
    Karen Björk Björgvinsdóttir og Adam Reeve hjá dansdeild ÍR, heimsmeistarar í samkvæmisdönsum.

    Karen Björk Björgvinsdóttir og Adam Reeve hjá dansdeild ÍR verða heimsmeistarar í samkvæmisdönsum á HM í Tokýó, fyrstu íslensku heimsmeistararnir í dansi.

    Fram stofnar almenningsíþróttadeild fyrst reykvískra félaga.

    Átakið „Hjólað í vinnuna“ er kynnt til sögunnar.

    ÍBR tekur að sér umsjón með rekstri Reykjavíkurmaraþonsins. Það var áður í höndum sérstaks félags í eigu áhugafólks og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu.

  • 2004
    Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur skóflustungu af nýrri innilaug við Laugardalslaug.
    Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur skóflustungu af nýrri innisundlaug við Laugardalslaug.

    KSÍ ræðst í áttak við að byggja upp sparkvelli við grunnskóla landsins.

    Ný fimmtíu metra innisundlaug tekin í notkun við Laugardalslaug. Laugin gjörbyltir æfingaraðstöðu sundfólks í borginni.

  • 2005
    Mynd af hlaupabrautinni í nýju frjálsíþróttahöllinni við hlið Laugardalshallar.
    Hlaupabrautin í nýju frjálsíþróttahöllinni við hlið Laugardalshallar.

     Fyrsta keppnin í Skólahreysti fer fram með þátttöku liða úr unglingadeildum sex grunnskóla. Keppnin vex hratt að umfangi og hefur um árabil verið einn vinsælasti sjónvarpsíþróttaviðburður landsins.

    Frjálsíþróttamenn fá loks inniaðstöðu þegar nýja íþróttahöllin er reist við hlið Laugardalshallar.

    Stórframkvæmdum við Laugardalsvöll lýkur. Sætum í vesturstúku er fjölgað úr 7 þúsund í 10 þúsund og þriggja hæða mannvirki með inngangi fyrir áhorfendur og skrifstofum KSÍ tekin í notkun.

  • 2006
    Hlauparar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, Hallgrímskirkja í bakgrunni. Ljósmyndari: Eva Björk Ægisdóttir.
    Hlauparar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka.

    Að fyrirmynd hlaupa í stórborgum á borð við New York og London er tekið upp á þeirri nýbreytni að gefa fólki og fyrirtækjum kost á að heita á þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni og styrkja með þeim hætti hvers kyns félagasamtök. Undirtektir reynast góðar, söfnunin vekur á ári hverju mikla athygli á hlaupinu og umtalsverðar fjárhæðir hafa safnast.

    „Íþróttavæðum Ísland“, skýrsla starfshóps um gerð opinberrar íþróttastefnu er gefin út.

  • 2007

    Frístundakortið, nýtt stuðningskerfi Reykjavíkurborgar við íþrótta- og tómstundastarf ungmenna, er tekið í notkun.

    Alþjóðaleikar ungmenna eru haldnir í Reykjavík. Um er að ræða íþróttakeppni fyrir börn á aldrinum 12 til 15 ára sem haldin er með stuðningi Alþjóðaólympíunefndarinnar ár hvert. Fyrstu leikarnir fóru fram í Júgóslavíu árið 1968 en Reykjavík hefur sent keppendur frá árinu 2001.

    Aðstaða til skylminga er sett upp í Baldurshaga, undir stúku Laugardalsvallar.

  • 2008
    Ung stúlka sýnir listir sínar á skautum á RIG, Reykjavik International Games.
    Listskautar á RIG, Reykjavik International Games.

    Lífshlaupinu, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ er ýtt úr vör.

    RIG, Reykjavik International Games, er haldið í fyrsta sinn. Um er að ræða afrekskeppni í fjölda íþróttagreina sem haldin er snemma árs sem skipulögð er af ÍBR.

  • 2009
    ÍBR merki með hliðartexta, hannað af Evu Hrönn Guðnadóttur.
    Merki ÍBR eftir Evu Hrönn Guðnadóttur.

    Nýtt merki ÍBR er tekið upp. Hönnuður þess er Eva Hrönn Guðnadóttir. Eldra merki bandalagsins teiknaði Halldór Pétursson á tíu ára afmæli þess  árið 1954.

    Evrópumeistaramót fatlaðra í sundi er haldið í Reykjavík með um 600 keppendum auk þjálfara, fararstjóra og aðstoðarfólks.

  • 2010

    Íþróttafélag fatlaðra er enn eitt árið langsöluhæsta Reykjavíkurfélagið þegar kemur að sölu getraunaseðla. Félagið seldi meira en sem nam samanlagðri sölu sjö næstu félaga.

Frá opnunarhátíð Reykjavíkurleikanna/ Grunnskólamóti Höfuðborga Norðurlanda 2014. Á myndinni sjást keppendur frá Íslandi, Svíðþjóð & Noreg á Þróttarvellinum í Laugardal.

2011- Til framtíðar

Djúp efnahagslægð í kjölfar hrunsins skapar íþróttafélögunum ögrandi verkefni. Íslenskir íþróttamenn ná eftirtektarverðum árangri erlendis og áhugi almennings á heilsurækt- og eflingu helst stöðugur. Aukin áhersla á samfélagslega ábyrgð íþróttafélaga sem mikilvægra samfélagsstofnanna í stað þess að einblína á afrek fárra einstaklinga.

  • 2011
    Reykvíska liðið með íslenska fánann á lofti í Kaupmannahöfn á Grunnskólamóti Höfuðborga Norðurlanda.
    Reykvíska liðið í Kaupmannahöfn á Grunnskólamóti Höfuðborga Norðurlanda.

    Grunnskólamót höfuðborga Norðurlandanna er haldið í Reykjavík í fyrsta sinn. Mótið er gamalgróið og var fyrst haldið í Stokkhólmi árið 1948. Reykvíkingum hafði margoft verið boðið að senda ungmenni til þátttöku en ekki var unnt að verða við því fyrr en árið 2006. Keppt var í Reykjavík í lok maímánaðar 

    í snjókomu og í skugga eldsumbrota, en fór mótið engu að síður fram á hinn besta hátt. Keppnisgreinar á grunnskólamótinu eru einkum handbolti, fótbolti og frjálsar íþróttir.

  • 2012
    Gísli Halldórsson arkitekt ásamt Sigurgeiri Guðmannssyni skoða Laugardalshöll í byggingu.
    Gísli Halldórsson arkitekt ásamt Sigurgeiri Guðmannssyni skoða Laugardalshöll í byggingu.

    Gísli Halldórsson fellur frá, 98 ára að aldri. Fáir hafa átt jafn stóran þátt í að móta íslenskt íþróttalíf og Gísli sem stýrði ÍBR, ÍSÍ og Ólympíunefnd Íslands um langt árabil, auk þess að vera sem arkitekt einhver mikilvirkasti hönnuður íþróttamannvirkja í landinu.

    Blikkið, heimildarmynd um sögu Melavallarins eftir Kára G. Schram er frumsýnd.

  • 2013

    Nafnbótin Íþróttamaður Reykjavíkur er aflögð en í staðinn eru Íþróttakona og Íþróttakarl Reykjavíkur valin, sem og Íþróttalið ársins. Hinir nýju titlar koma í hlut frjálsíþróttafólksins Anítu Hinriksdóttur úr ÍR, Helga Sveinssonar úr Ármanni og karlaliðs KR í knattspyrnu.

  • 2014

    Grunnskólamót norrænu höfuðborganna er haldið í Reykjavík í annað sinn, þó einungis þrjú ár væru liðin frá síðasta skipti. Ástæðan var sú að skipuleggjendur mótsins, sem halda átti í Stokkhólmi, lentu í vandræðum og hljóp Reykjavík í skarðið á síðustu stundu. Þótt tíminn væri knappur reyndist framkvæmdin öll til fyrirmyndar. 

  • 2015
    Frá opnunarhátíð Smáþjóðaleikanna 2015, hópur keppenda situr fyrir framan Frjálsíþróttahöllina í Laugardal. Ljósmyndari: Arnaldur Halldórsson (ARN), mynd frá ÍSÍ.
    Frá opnunarhátíð Smáþjóðaleikanna 2015, hópur keppenda situr fyrir framan Frjálsíþróttahöllina í Laugardal.

    Smáþjóðaleikar eru haldnir í Reykjavík í annað sinn. Íslendingar hlutu flest verðlaun í fyrsta sinn frá árinu 2001.

  • 2016
    Keppendur í Tour of Reykjavik.
    Keppendur í Tour of Reykjavik.

    Hjólreiðakeppnin Tour of Reykjavík haldin í fyrsta sinn. Keppt var í götuhjólreiðum fyrir almenning jafnt sem keppnisfólk, þar sem stysta vegalengd var 2 km. en sú lengsta 125 km.

  • 2017

    Þing ÍBR samþykkir að ráðast í fýsileikakönnun á að reisa fjölnota íþróttahús í Laugardal sem létt gæti á álagi við æfingar og keppni í knattspyrnu, en jafnframt nýst fyrir stórviðburði í öðrum íþróttum. Í því skyni er horft til þess að Laugardalshöllin uppfyllir í raun ekki lengur ströngustu skilyrði sem alþjóðlegt keppnishús í handbolta og körfubolta.

  • 2018
    Merki metoo-hreyfingarinnar #metoo
    Merki #metoo-hreyfingarinnar.

    Í tengslum við #metoo-hreyfinguna birtast frásagnir fjölda íþróttakvenna af kynbundnu ofbeldi, kynferðisofbeldi, einelti og áreiti í tengslum við íþróttastarf. Afhjúpanir þessar kalla á hörð viðbrögð íþróttahreyfingarinnar og sem leggur aukna áherslu á að herða á reglum og verkferlum til að tryggja að iðkendur búi við öruggar aðstæður í íþróttastarfi.

    Reykjavíkurborg, ríki og KSÍ stofna undirbúningsfélag um uppbyggingu nýs Laugardalsvallar. Sérstaklega skal kanna möguleikann á að reisa völlinn með opnanlegu þaki.

  • 2019
    Rafíþróttir á RIG 2019. Keppendur sitja við tölvur og spila.
    Rafíþróttir á RIG 2019.

    Söguskilti til minningar um Melavöllinn er afhjúpað á 75 ára afmæli ÍBR.

    Rafíþróttir eru á dagskrá Reykjavíkurleikanna. Krýndir eru rafíþróttameistarar í þremur vinsælum tölvuleikjum: Fortnite, Counter Strike og League of Legends.

    Aðild ÍBR að Ungmennafélagi Íslands samþykkt á sambandsþingi UMFÍ. Aðildarumsókn var fyrst lögð fram árið 1997.

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna