Nú hafa hverfafundir undir nafninu Öll í sama liði farið fram í öllum hverfum borgarinnar. Fundaröðin var samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs, íþrótta- og tómstundasviðs og Íþróttabandalags Reykjavíkur.
Markmið fundanna var að kalla saman fulltrúa frá ólíkum hagsmunaaðilum í hverfinu og ræða hvernig bregðast má við óæskilegri hegðun, ómenningu og áreitni meðal barna og unglinga í sameiningu. Hver fundur var um tvær klukkustundir, þátttakendur hlýddu á stutt fyrir fram upptekin fræðsluerindi í upphafi og svo fóru fram umræður í hópum. Erindin á fundunum voru frá Vöndu Sigurgeirsdóttur frá KSÍ, Sif Atladóttur landsliðskonu í knattspyrnu og Þorsteini V. Einarssyni frá Karlmennskunni.
Á fundina mættu fulltrúar frá foreldrafélögum, leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, ungmennaráðum, þjónustumiðstöðvum, sundlaugum, íþróttafélögum og fjölskyldu- og húsdýragarðinum
Þátttakendur voru hvattir til að halda vinnunni áfram og taka samtalið með virkri þátttöku barna og ungmenna í þeirra hverfi og fá þau með í lið til að skapa enn betra hverfi og samfélag fyrir öll. Í sumum hverfum er þegar búið að halda fleiri fundi, mynda vinnuhópa og í a.m.k. einu hverfi er búið að leggja drög að stærra verkefni sem eflir samstarf milli aðila hverfisins hvað varðar jákvæð samskipti.
Helstu niðurstöður hvers fundar voru sendar í hvert hverfi fyrir sig og þátttakendum veittur aðgangur að erindunum sem sýnd voru á fundinum til að vinna áfram með í sínu nærumhverfi. Niðurstöður fundanna voru síðan nýttar til að útbúa veggspjald sem dreift verður í öll hverfi borgarinnar í haust. ÍBR mun sjá til þess að veggspjöldin fari í íþróttahúsin í Reykjavík.