Íþróttafólk Reykjavíkur 2017

15. desember 2017

Íþróttakarl Reykjavíkur 2017, körfuknattleiksmaðurinn Jón Arnór Stefánsson úr Knattspyrnufélagi Reykjavíkur og íþróttakona Reykjavíkur 2017 kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur.

Tilkynnt var um val á Íþróttafólki Reykjavíkur í dag. Af því tilefni bauð borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, til móttöku í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Allt frá árinu 1979 hefur stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur valið Íþróttamann Reykjavíkur og var þetta því í 39. sinn sem hátíðin fór fram. Í ár voru í fimmta sinn kjörin Íþróttakarl og Íþróttakona Reykjavíkur auk þess sem að Íþróttalið ársins í Reykjavík var valið.

Íþróttakarl Reykjavíkur 2017 er körfuknattleiksmaðurinn Jón Arnór Stefánsson úr Knattspyrnufélagi Reykjavíkur. Jón Arnór var besti leikmaður körfuknattleiksliðs KR á árinu þegar hann leiddi liðið bæði til Íslands,- og bikarmeistaratitils. Jón Arnór leiddi einnig íslenska landsliðið á Eurobasket í Finnlandi en þess má geta að Jón Arnór hefur 12x verið útnefndur körfuknattleiksmaður ársins af KKÍ, oftar en nokkur annar.

Íþróttakona Reykjavíkur 2017 er kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur. Ólafía Þórunn keppti á þremur s.k. risamótum á LPGA mótaröðinni á árinu. Hún hefur tryggt sér áframhaldandi keppnisrétt á mótaröðinni með því meðal annars að hafna í 4. sæti á Indy Women mótinu. Þetta er annað árið í röð sem Ólafía Þórunn er valin Íþróttakona Reykjavíkur.

Íþróttalið Reykjavíkur 2017 er lið Vals í handknattleik karla sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari á árinu.

Ellefu einstaklingar og sextán lið frá þrettán félögum voru verðlaunuð fyrir frábæran árangur á árinu 2017 í dag. Íþróttafólkið og íþróttafélögin sem að liðunum standa fengu bæði áletraða verðlaunagripi og peningastyrk í verðlaun en heildarupphæð styrkjanna var 6.250.000 krónur. Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur veittu styrkina.

Liðin sem fengu verðlaun fyrir góðan árangur á árinu 2017:

• Ármann Íslandsmeistarar liða í taekwondo
• Esjan Íslandsmeistarar í íshokkí
• Fram Íslandsmeistarar kvenna í handknattleik
• Fylkir Íslandsmeistarar karla í kumite
• GR Íslandsmeistarar kvennaliða í golfi
• ÍR bikarmeistarar í frjálsíþróttum
• ÍR Íslandsmeistarar í karlaflokki í keilu
• Júdófélag Reykjavíkur bikarmeistarar í sveitakeppni karla
• KFR Íslands,- og bikarmeistarar í keilu
• KR Íslands- og bikarmeistarar í körfuknattleik karla
• KR Íslandsmeistarar í liðakeppni í borðtennis
• TBR Íslandsmeistarar í liðakeppni í badminton
• Valur Íslands- og bikarmeistarar í handknattleik karla
• Valur Íslandsmeistarar í knattspyrnu karla
• Víkingur bikarmeistari í liðakeppni í borðtennis
• Þórshamar Íslandsmeistarar í kata

Einstaklingarnir sem fengu verðlaun fyrir góðan árangur á árinu 2017:

• Aníta Hinriksdóttir, Íþróttafélagi Reykjavíkur
• Anton Sveinn McKee, Sundfélaginu Ægi
• Ásdís Hjálmsdóttir, Glímufélaginu Ármanni
• Eygló Ósk Gústafsdóttir, Sundfélaginu Ægi
• Fanney Hauksdóttir, Kraflyftingafélagi Reykjavíkur
• Haukur Páll Sigurðsson, Knattspyrnufélagið Valur
• Helgi Sveinsson, Glímufélaginu Ármanni
• Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, Glímufélaginu Ármanni
• Jón Arnór Stefánsson, Knattspyrnufélagi Reykjavíkur
• Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Golfklúbbi Reykjavíkur
• Snorri Einarsson, Skíðagöngufélaginu Ulli
• Steinunn Björnsdóttir, Knattspyrnufélaginu Fram

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson og formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur, Ingvar Sverrisson, afhentu íþróttafólkinu og forsvarsmönnum íþróttafélaganna verðlaunin í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Á Facebook síðu Íþróttabandalags Reykjavíkur má finna fleiri myndir frá viðburðinum.

Íþróttalið Reykjavíkur 2017 er handknattleikslið karla í Val sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari á árinu.

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna