Andrea Kolbeins og Snorri Einars eru íþróttafólk Reykjavíkur 2022

8. desember 2022

Andrea Kolbeinsdóttir frjálsíþróttakona úr ÍR og Snorri Einarsson skíðagöngumaður úr Ulli eru íþróttafólk Reykjavíkur 2022

Íþróttakona Reykjavíkur 2022 er Andrea Kolbeinsdóttir, frjálsíþróttakona í Íþróttafélagi Reykjavíkur.

Andrea er sigursælasti hlaupari kvenna á Íslandi 2022. Andrea var í 21. sæti á Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í Tælandi. Andrea náði einnig 2. sæti í sterku utanvegahlaupi í Wildstrubel í Sviss á árinu. Andrea hefur sýnt það á árinu að hún getur sigrað hlaup allt frá 5 km upp í 55 km. Andrea er  Íslandsmeistari í maraþoni, en hún sigraði Reykjavíkurmaraþonið á öðrum besta tíma kvenna frá upphafi. Þá er hún Íslandsmeistari í 5 km, 10 km og 8 km Víðavangshlaupi. Andrea sigraði í Laugaveghlaupinu á nýju brautarmeti kvenna, ásamt því að sigra öll stærstu hlaupin hér á landi eins og Tindahlaupið, Fimmvörðuhálshlaupið, Súlur Vertical, Snæfellsjökulhlaupið og fleira.

Við óskum Andreu Kolbeinsdóttur til hamingju með titilinn Íþróttakona Reykjavíkur 2022.

 

Íþróttamaður Reykjavíkur 2022 er Snorri Eyþór Einarsson skíðagöngumaður í skíðagöngufélaginu Ulli

Snorri náði besta árangri skíðagöngumanns á Íslandi frá upphafi á Vetrarólympíuleikunum í Peking. Á Ólympíuleikunum náði hann 23. sæti í 50 km skíðagöngu með frjálsri aðferð, 29. sæti í 30 km skiptiganga, 36. sæti í 15 km skíðagöngu með hefðbundinni aðferð og varð í 19. sæti í liða sprettinum. Snorri varð einnig í 13. sæti á alþjóðlegu FIS móti í 15 km með frjálsri aðferð. Snorri er einnig þrefaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu á árinu í 10 km göngu með frjálsri aðferð, 15 km með hefbundinni aðferð og í 1 km sprettgöngu. Þá sigraði Snorri einnig í 10 km hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu.

Við óskum Snorra Eyþóri Einarssyni til hamingju með titilinn Íþróttamaður Reykjavíkur 2022.

Frá vinstri, Dagur B. Eggertsson borgastjóri Reykjavíkur, Alexander Örn Júlíusson fyrirliði handkattleiksliðs Vals, Andrea Kolbeinsdóttir íþróttakona Reykjavíkur 2022, Snorri Einarsson íþróttamaður Reykjavíkur 2022, Ingvar Sverrisson formaður ÍBR

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna