Íþróttahátíðin WOW Reykjavik International Games fer fram dagana 26.janúar til 5.febrúar næstkomandi. Í tilefni 10 ára afmælis leikanna verður dagskráin sérstaklega glæsileg og hluti af Vetrarhátíð. Það er Íþróttabandalag Reykjavíkur í samstarfi við sérsambönd ÍSÍ og íþróttafélögin í Reykjavík sem hefur veg og vanda að undirbúningi og framkvæmd leikanna.
Leikarnir hefjast á kynningarfundi fyrir fjölmiðla fimmtudaginn 26.janúar og enda með glæsilegri hátíðardagskrá þann 5.febrúar. Keppt verður í 19 íþróttagreinum þar sem reiknað er með þátttöku á sjötta hundrað erlendra gesta ásamt flestu af besta íþróttafólki okkar Íslendinga. Von er á mjög sterkum erlendum keppendum til landsins í öllum greinum. Má þar nefna heimsmeistara og heimsmethafa í kraftlyftingum, silfurverðlaunahafi á Ólympíuleikum í fimleikum, Evrópumeistara í sundi og bronsverðlaunahafa á Ólympíuleikum í júdó.
Í ár verður í fyrsta skiptiboðið uppá spennandi „Off Venue“ dagskrá þar sem allir sem vilja geta tekið þátt. Á „Off Venue“ dagskránni eru meðal annars hjólasprettur upp Skólavörðustíg, hátíðir í Laugardalshöll þar sem boðið verður uppá kvöldverð og skemmtiatriði, 5 km skemmtiskokk um miðbæ Reykjavíkur sem ber heitið WOW Northern Lights Run, spennandi ráðstefnur með þekktum erlendum fyrirlesurum og fleira skemmtilegt.
Heimasíða leikanna með upplýsingum á íslensku og ensku er www.rig.is