WOW Air og Íþróttabandalag Reykjavíkur í samstarf

2. nóvember 2016

Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritunina en þar eru ásamt Skúla og Ingvari íþróttafólk sem hafa verið reglulegir þátttakendur í íþróttaviðburðum ÍBR.

Í gær undirrituðu WOW air og Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) samstarfssamning vegna íþróttaviðburða til næstu þriggja ára.

Íþróttabandalag Reykjavíkur stendur árlega fyrir fjölbreyttu viðburðahaldi. WOW air verður með samningnum opinbert flugfélag allra íþróttaviðburða ÍBR og auk þess munu þrír þeirra bera nafn flugfélagsins.

ÍBR stendur fyrir þremur rótgrónum og þekktum hlaupaviðburðum ár hvert en þeir eru Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka, Miðnæturhlaup Suzuki og Laugavegshlaupið. Nýjasti viðburður ÍBR er Tour of Reykjavik, hjólreiðakeppnin sem haldin var í Reykjavík síðastliðin september og vakti mikla athygli. Á næsta ári mun keppnin heita WOW Tour of Reykjavik.

Í janúar verða Reykjavíkurleikarnir 10 ára og af því tilefni verður í samstarfi við Vetrarhátíð farið af stað með nýjan viðburð, WOW Northern Lights Run. Hlaupið er 5 km skemmtiskokk um miðbæ Reykjavíkur þar sem ríkja mun mikil ljósadýrð og gleði. Almenningur fær þar tækifæri til að taka þátt í Reykjavíkurleikunum sem nú munu bera heitið WOW Reykjavik International Games.

Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, og Skúli Mogensen, forstjóri WOW air undirrituðu samninginn við hátíðlega athöfn í Hörpu í gær.

„Virði samningsins við WOW air fyrir ÍBR og viðburðina er bæði fólgið í fjárframlagi en ekki síður betri kjörum á flugi sem skiptir miklu máli þegar unnið er að því að fá erlenda þátttakendur til landsins. Við erum mjög spennt fyrir samstarfinu og þakklát WOW air“ segir Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR.

„Við erum stolt af því að leggja okkur af mörkum til að efla íþróttaviðburði í Reykjavík. Það hefur verið markmið okkar frá fyrsta degi að styðja við bakið á afreksfólki en jafnframt lagt ríka áherslu á að efla hverslags hreyfingu og útivist þar sem við getum notið alls sem Ísland hefur upp á að bjóða“ segir Skúli Mogensen forstjóri WOW air.

Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritunina í gær en þar eru ásamt Skúla og Ingvari íþróttafólk sem hafa verið reglulegir þátttakendur í íþróttaviðburðum ÍBR. Ljósmyndari er Sigurjón Ragnar.

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna