Spennandi ráðstefnur

19. janúar 2017

Mynd af fólki í ráðstefnusal

Í tengslum við WOW Reykjavik International Games 2017 standa Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands fyrir tveimur ráðstefnum um íþróttatengd málefni í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Sex erlendir fyrirlesarar munu flytja áhugaverð erindi á ensku.

Fyrri ráðstefnan verður 26.janúar kl.17:30-20:30 og ber hún yfirskriftina Lyfjamál í íþróttum. Fjallað verður um hvað íþróttafólk þarf að hafa í huga þegar það neytir fæðubótarefna, þekktur hjólreiðamaður segir frá reynslunni við að falla á lyfjaprófi og rannsóknarblaðamaðurinn sem kom upp um lyfjasvindl Rússa flytur áhugavert erindi.

Seinni ráðstefnan fjallar um góða stjórnunarhætti og fer fram 2.febrúar kl.17:30-20:30. Þar munu þrír reyndir stjórnendur úr íþróttahreyfingunni sem koma frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku flytja fræðandi erindi um sína stjórnunarhætti. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa gert miklar breytingar á skipulagi sinna íþróttasambanda og náð mjög góðum árangri í kjölfarið.

Verðið á hvora ráðstefnu er 4.900 krónur og er kvöldverður innifalinn. Ef báðar ráðstefnur eru keyptar í einu er verðið 8.900 krónur og fylgir þá með 3.000 króna gjafabréf sem gildir sem greiðsla uppí WOW Northern Lights Run.

Á heimasíðu Reykjavíkurleikanna má finna nánari upplýsingar og þar er einnig hægt að skrá sig. Skráning verður opin þangað til daginn fyrir hvora ráðstefnu nema uppselt verði fyrir þann tíma.

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna