Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir fara fram í níunda sinn dagana 21.-31.janúar næstkomandi. Það er Íþróttabandalag Reykjavíkur í samstarfi við sérsambönd ÍSÍ og íþróttafélögin í Reykjavík ásamt dyggum samstarfsaðilum sem standa að leikunum.
Reykjavíkurleikarnir eru mikil íþróttahátíð þar sem keppt er í 21 einstaklingsíþróttagrein. Flestir mótshlutarnir fara fram í Laugardalnum og nágrenni hans. Keppnin skiptist niður á tvær mótshelgar en einnig er ráðstefna um afreksíþróttir hluti af dagskránni. Hér á heimasíðu leikanna má finna lista yfir íþróttagreinar og dagskrá. Hér má finna upplýsingar um ráðstefnuna.
Reiknað er með að rúmlega fimm hundruð erlendir gestir komi á Alþjóðlegu Reykjavíkurleikana í ár ásamt um 2.000 íslenskum íþróttamönnum. Margt af besta íþróttafólki okkar Íslendinga verður á meðal þátttakenda. Má þar nefna sundkonuna og Íþróttamanna ársins 2015 Eygló Ósk Gústafsdóttur, frjálsíþróttakonuna Anítu Hinriksdóttur, dansparið Hönnu Rún Óladóttur og Nikita Basev. Þá taka Ólympíufararnir Þormóður Jónsson júdókappi og Ásgeir Sigurgeirsson skotíþróttamaður líka þátt.
Einnig eru margir mjög sterkir erlendir keppendur væntanlegir til landsins vegna leikanna í ýmsum greinum. Heimsmeistarar í kraftlyftingum kvenna, Kimberly Walford og Bonica Lough frá Bandaríkjunum, Dwain Chambers sem er fyrrum Heims- og Evrópumeistari í spretthlaupi, Mie Østergaard Nielsen Evrópu- og Heimsmeistari sundi og Alizee Agier, Heims og Evrópumeistari í karate. Einnig eru mjög sterkir erlendir keppendur í badminton, listhlaupi á skautum, júdó, keilu, taekwondo og Ólympískum lyftingum.
RÚV verður með ellefu útsendingar og samantektarþætti um leikana.
Upplýsingar um Reykjavíkurleikana má finna á eftirfarandi miðlum:
Upplýsingasíða á ensku rig.is
Farsímavefur á íslensku m.rig.is
Miðasala á midi.is
Facebook
Twitter
Instagram
Youtube