Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands standa fyrir íþróttaráðstefnu í samstarfi við Háskólann í Reykjavík fimmtudaginn 21. janúar. Ráðstefnan fer fram í Háskólanum í Reykjavík og er hluti af Reykjavíkurleikunum 2016. Fyrirlestrarnir fara fram á ensku og verður Adolf Ingi Erlingsson ráðstefnustjóri.
Sjö áhugaverðir fyrirlesarar munu flytja erindi um afreksíþróttir:
- Dr. Ronal Kipp, fræðslustjóri skíða- og snjóbrettasambands Bandaríkjanna, talar um þróun íþróttamannsins en hann er sérfræðingur í hreyfifærni og hefur haldið yfir 100 fyrirlestra í heimalandinu og utan þess.
- Jacky Pellerin, landsliðsþjálfari Íslands í sundi og þjálfari Eyglóar Óskar íþróttamanns árins, ræðir um mikilvægi styrktarþjálfunar hjá sundmönnum og gefur innsýn í hvernig styrktarþjálfun hefur hjálpað okkar bestu sundmönnum.
- Dr. Michail Tonkonogi, prófessor í íþróttalífeðlisfræði, fjallar um styrktarþjálfun barna, hvernig hún á að vera uppbyggð, hvaða æfingar á að gera o.fl.
- Hlín Bjarnadóttir, sjúkraþjálfari og fimleikaþjálfari, talar um ástæðu þess af hverju fimleikar hafa virkað vel sem grunnur þegar kemur að iðkun annarra íþróttagreina. Hún fær til liðs við sig Fanneyju Hauksdóttur og Þóreyju Eddu Elísdóttur sem báðar hófu íþróttaferilinn í fimleikum en söðluðu um og náðu árangri á heimsmælikvarða í öðrum íþróttagreinum.
- Dwain Chambers, breskur spretthlaupari sem hefur unnið til fjölda verðlauna á heims og Evrópumótum og er einn besti evrópski spretthlaupari sögunnar, segir frá því hvernig var að koma til baka til keppni eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Umræðunni stjórnar Adolf Ingi en áhorfendum gefst færi á að spyrja.
Miða á ráðstefnuna er hægt að kaupa á midi.is. Ráðstefnugjald er 3.500 kr.- og er léttur kvöldverður innifalinn.
Nánari dagskrá má finna hér.