Laugavegshlaupið fór fram í frábærum aðstæðum laugardaginn 15. júlí. 579 hlauparar tóku af stað í Landmannalaugum og lögðu leið sína yfir í Húsadal. Það var heitt og góður meðvindur stóran part af leiðinni. Andrea Kolbeinsdóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði í kvennaflokki annað árið í röð, en hún bætti einnig brautarmet í kvennaflokki annað árið í röð með tímanum 04:22:56. Arnar Pétursson vann í karlaflokki annað árið í röð á tímanum 04:00:48 en hann bætti sitt fyrra met um 4 mínútur, sem verður að teljast glæsilegur árangur.
Frábær mæting áhorfenda vakti mikla lukku og studdu þeir vel við bakið á duglegum hlaupurum. Að sögn keppenda, gesta og mótshaldara var mikil gleði með það hvernig mótið fór fram.