Íþróttafólk Reykjavíkur 2016

14. desember 2016

Íþróttafólk Reykjavíkur 2016

Tilkynnt var um val á Íþróttafólki Reykjavíkur í dag. Í tilefni dagsins bauð borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, til móttöku í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Allt frá árinu 1979 hefur stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur valið Íþróttamann Reykjavíkur og var þetta því í 38.sinn sem hátíðin fór fram. Í ár voru í fjórða sinn kjörin Íþróttakarl og Íþróttakona Reykjavíkur auk þess sem að Íþróttalið ársins í Reykjavík var valið.

Íþróttakarl Reykjavíkur 2016 er kraftlyftingamaðurinn Júlían Jóhann Karl Jóhannsson úr Glímufélaginu Ármanni. Júlían varð heimsmeistari í réttstöðulyftu í flokki fullorðinna og heims- og Evrópumeistari ungmenna á árinu ásamt því að setja ótal Íslands- og Norðurlandamet. Hann er stigahæsti íslenski kraftlyftingamaðurinn frá upphafi. Íþróttakona Reykjavíkur 2016 er kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur. Ólafía Þórunn var á dögunum fyrst íslenskra kylfinga til að vinna sig inn á PGA mótaröðina í golfi. Hún er Íslandsmeistari kvenna í golfi og setti mótsmet á Íslandsmótinu með því að leika á -11 samtals. Íþróttalið Reykjavíkur 2016 er lið KR í körfuknattleik karla sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari á árinu.

Tíu einstaklingar og fimmtán lið frá tíu félögum voru verðlaunuð fyrir frábæran árangur á árinu 2016 í dag. Íþróttafólkið og íþróttafélögin sem að liðunum standa fengu bæði áletraða verðlaunagripi og peningastyrk í verðlaun en heildarupphæð styrkjanna var 4.500.000 krónur. Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur veittu styrkina.
Liðin sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2016:

  • Ármann – Bikarmeistarar í liðakeppni í áhaldafimleikum karla
  • Ármann – Bikarmeistarar í liðakeppni í áhaldafimleikum kvenna
  • GR – Íslandsmeistarar í sveitakeppni kvenna í golfi
  • ÍR – Bikarmeistarar í keilu kvenna
  • ÍR – Íslands- og bikarmeistarar í keilu karla
  • Júdófélag Reykjavíkur – Bikarmeistarar í sveitakeppni karla
  • Júdófélag Reykjavíkur – Bikarmeistarar í sveitakeppni kvenna
  • Keilufélag Reykjavíkur – Íslandsmeistarar í keilu kvenna
  • KR – Íslands- og bikarmeistarar í körfuknattleik karla
  • KR – Íslandsmeistarar í liðakeppni kvenna í borðtennis
  • TBR – Íslandsmeistarar í liðakeppni beggja kynja í badminton
  • Valur – Bikarmeistarar í handknattleik karla
  • Valur – Bikarmeistarar í knattspyrnu karla
  • Víkingur – Íslandsmeistarar í liðakeppni karla í borðtennis
  • Þórshamar – Íslandsmeistarar í kata karla

Einstaklingarnir sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2016:

  • Aníta Hinriksdóttir, ÍR
  • Anton Sveinn McKee, Ægir
  • Árni Björn Pálsson, Fákur
  • Ásdís Hjálmsdóttir, Ármann
  • Brynjar Þór Björnsson, KR
  • Eygló Ósk Gústafsdóttir, Ægir
  • Helgi Sveinsson, Ármann
  • Irina Sazonova, Ármann
  • Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, Ármann
  • Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR

Myndir af verðlaunahöfum má finna á Facebooksíðu Íþróttabandalags Reykjavíkur.

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna