Íþróttafólk Reykjavíkur 2020 var tilkynnt í dag með öðrum hætti en venjulega vegna aðstæðna í samfélaginu, meðfylgjandi eru myndbönd af tilnefningum og sigurvegurum.
Íþróttakona Reykjavíkur 2020 er Steinunn Björnsdóttir, handknattleikskona í Fram.
Steinunn Björnsdóttir er fyrirliði bikarmeistara og deildarameistara Fram í handknattleik 2020. Steinunn hefur verið besti leikmaður Íslandsmótsins í handbolta, eftir síðasta tímabil var hún valin besti varnar og línumaðurinn sem og valin mikilvægasti leikmaðurinn. Steinunn er fyrirmyndarleikmaður og mikill leiðtogi inn á vellinum, Steinunn leggur áherslu á að miðla reynslu sinni til yngri iðkenda og heldur fyrirlestra í félögum á höfuðborgarsvæðinu.
Við óskum Steinunni Björnsdóttur til hamingju með titilinn Íþróttakona Reykjavíkur 2020.
Íþróttamaður Reykjavíkur 2020 er Guðmundur Ágúst Kristjánsson, golfari í GR.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson er í Golfklúbbi Reykjavíkur. Á árinu 2020 var Guðmundur Ágúst með keppnisrétt á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, Challenge Tour en aðeins fimm íslenskir kylfingar hafa öðlast keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni. Guðmundur Ágúst endaði í 46. Sæti á stigalistanum sem er næst besti árangur hjá íslenskum atvinnukylfingi á Áskorendamótaröðinni (Challenge Tour). Besti árangur hans var á Norður-Írlandi þar sem Guðmundur Ágúst endaði í 5. sæti. Guðmundur Ágúst hefur farið hratt upp heimslistann á undanförnum misserum.
Við óskum Guðmundir Ágústi Kristjánssyni til hamingju með titilinn Íþróttamaður Reykjavíkur 2020.
Íþróttalið Reykjavíkur 2020 eru Íþróttafélögin í Reykjavík.
Árið 2020 hefur einkennst af því að félögin hafa þurft að hugsa út fyrir rammann til að halda íþróttafólkinu við efnið í miðjum heimsfaraldri. Þjálfarar og stjórnir íþróttafélaganna hafa unnið þrekvirki með því að aðlaga starfið og nýta tæknina eins og kostur var á.
Íþróttamenn sem tilnefndir eru Íþróttamanns og Íþróttakonu Reykjavíkur hljóta fjárstyrk frá ÍBR.
Þeir íþróttamenn sem tilnefndir voru:
Konur
Ásdís Hjálmsdóttir Annerud, spjótkastari - Ármann
Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, frjálsíþróttakona - ÍR
Elín Metta Jensen, knattspyrnukona - Valur
Kristrún Guðnadóttir, gönguskíðakona - Ullur
Karlar
Birkir Már Sævarsson, knattspyrna - Valur
Guðni Valur Guðnason, Krinlukast - ÍR
Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, kraftlyftingar - Ármann
Snorri Einarsson, skíðaganga - Ullur
Íþróttalið sem ná framúrskarandi árangri á árinu fá fjárstyrk frá ÍBR.
Þau lið sem eru Íslandsmeistarar, Bikarmeistarar og Deildarmeistarar hljóta styrkinn. Liðin sem hljóta styrk að þessu sinni eru:
Handknattleiksdeild Fram
Keiludeild ÍR
Keilufélag Reykjavíkur
Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur
Handknattleiksdeild Vals
Knattspyrnudeild Vals
Körfuknattleiksdeild Vals
Borðtennisdeild Víkings
Karatefélag Þórshamars
Skylmingafélag Reykjavíkur
Tennisdeild Víkings