Íþróttabandalag Reykjavíkur stendur fyrir þremur stórum hlaupaviðburðum á sumrin, Miðnæturhlaupi Suzuki, Laugavegshlaupinu og Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Hlaupasumarið 2019 gekk mjög vel og var góð þátttaka í öllum viðburðum.
Miðnæturhlaup Suzuki 2019 fór fram fimmtudagskvöldið 20.júní í frábæru veðri og var þetta í 27.sinn sem hlaupið fór fram. Til þátttöku voru skráðir 3015 hlauparar sem er nýtt þátttökumet. Um 1200 erlendir hlauparar voru á meðal þátttakenda frá 57 löndum. Eitt brautarmet var sett en það var Andrea Kolbeinsdóttir sem setti það í 5 km hlaupi kvenna.
Laugavegshlaupið fór fram í 23.sinn laugardaginn 13.júlí. Óvenju lítill snjór var á hlaupaleiðinni þetta árið og aðstæður mjög góðar. 513 hlauparar komu í mark í Þórsmörk og hafa aldrei jafn margir lokið hlaupinu. Fyrst í mark voru þau Þorbergur Ingi Jónsson og Anna Berglind Pálmadóttir.
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram í 36.sinn í frábæru hlaupaveðri laugardaginn 24.ágúst. Til þátttöku voru skráðir 14.667 hlauparar á öllum aldri. Þátttökumet var sett í 10 km hlaupinu þar sem 7203 tóku þátt og 3 km skemmtiskokki þar sem 2436 voru skráðir til þátttöku. Tæplega 3000 erlendir hlauparar frá 80 löndum tóku þátt í hlaupinu. Hlauparar gátu safnað áheitum á hlaupastyrkur.is og söfnuðust rúmlega 167 milljónir til góðra málefna sem er nýtt áheitamet.
Mörg hundruð félagar úr íþróttafélögunum í Reykjavík störfuðu við hlaupin í fjáröflun fyrir sitt félag. Sendum við þeim bestu þakkir fyrir vel unnin störf.