Fræðsla til íþróttafélaga í Reykjavík

20. október 2023

Í október stóð Íþróttabandalag Reykjavíkur fyrir mikilvægum fræðsluerindum fyrir öll aðildarfélög ÍBR. ÍBR heimsótti öll níu hverfafélög Reykjavíkur (Ármann, Fjölnir, Fram, Fylkir, ÍR, KR, Valur, Víkingur, Þróttur) þar sem allir þjálfarar og starfsfólk félaganna fengu fræðslu. Einnig var haldin fræðsla þar sem öllum öðrum aðildarfélögum ÍBR var boðið að koma og taka þátt, og fræðsla á ensku.

ÍBR stefnir að því að vera með fræðsludaga tvisvar á ári, þ.e. einu sinni á önn, þar sem fjallað er um málefni sem skipta íþróttahreyfinguna í Reykjavík máli. Á þessari önn fengu íþróttafélögin fræðslu frá Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs þar sem farið var yfir starf Samskiptaráðgjafa og hvernig íþróttafélögin geta nýtt sér þjónustu hans. Sveinn Sampsted fræðari frá Samtökunum 78 var einnig með vinnustofu fyrir íþróttafélögin þar sem þjálfarar og starfsfólk fengu þjálfun í að bregðast við hinum ýmsu aðstæðum sem geta komið upp í íþróttastarfi tengt hinseginleikanum.

ÍBR leggur sérstaka áherslu á jafnréttis- og siðamál í greiðslusamningum íþróttafélaganna. Þar kemur meðal annars fram að hverfafélögin skulu senda þjálfara og starfsfólk félagsins á fræðsluerindin.

Íþróttabandalag Reykjavíkur leggur mikla áherslu á að íþróttir séu fyrir öll og er þessi fræðsla einn liður í því.

Á mynd eru: Sveinn Sampsted, Birta Björnsdóttir og Sigurbjörg Sigurpálsdóttir

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna