Andrea Kolbeinsdóttir frjálsíþróttakona úr ÍR, Haraldur Franklín kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Ísold Klara Felixdóttir karatekvár úr Fylki eru íþróttafólk Reykjavíkur 2023.
Íþróttakona Reykjavíkur 2023 er Andrea Kolbeinsdóttir, frjálsíþróttakona í Íþróttafélagi Reykjavíkur.
Andrea Kolbeinsdóttir er heldur betur búin að eiga ótrúlegt ár en hún gerði sér lítið fyrir og vann öll þau hlaup á árinu sem hún tók þátt í. Meðal þeirra hlaupa sem hún vann voru Laugavegshlaupið og Reykjavíkurmaraþonið, þar sem hún var 33 mínútum á undan næstu konu. Hún gerði sér einnig lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í 5 og 10km götuhlaupi, hálfu og heilu maraþoni, 1500m hlaupi, 3000m hindrunarhlaupi og í 5000m hlaupi. Í heildina vann hún 7 Íslandsmeistaratitla í hlaupum sem er magnaður árangur. Að lokum má bæta við að Andrea lenti í 35. sæti á Heimsmeistaramótinu í Utanvegahlaupum í 45km hlaupi.
Andrea var ekki eingöngu sigursæl á hlaupabrautinni en hún varð einnig Íslandsmeistari í skíðagöngu í tveimur greinum, 5km göngu með hefðbundinni aðferð og í liðakeppni, en einnig fékk hún tvö silfur í sprettgöngu og 10km göngu með frjálsri aðferð. Við óskum Andreu Kolbeinsdóttur innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.
Frá vinstri: Ingvar Sverrisson(formaður ÍBR), Andrea Kolbeinsdóttir og Dagur B. Eggertsson.
Íþróttamaður Reykjavíkur 2023 er Haraldur Franklín Magnús kylfingur í Golfklúbbi Reykjavíkur
Haraldur Franklín Magnús átti frábært ár en hann lék 13 mót á Áskorendamótaröð Evrópu. Meðal annarra afreka árinu hjá Haraldi má telja upp að hann tók þátt í lokaúrtökumóti fyrir The Open, komst í lokaúrtökumót fyrir Evrópumótaröðina, lék á tveimur á mótum DP World Tour, endaði í 127. sæti á Áskorendamótaröðinni, vann sér inn þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári, en þess má einnig geta að Haraldur Franklín er ennþá eini karlkylfingurinn sem leikið hefur á risamóti þegar hann lék á Opna Breska meistaramótinu í Júlí 2018. Við óskum Haraldi Franklín innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.
Íþróttakvár Reykjavíkur 2023 er Ísold Klara Felixdóttir karatekvár úr Fylki.
Ísold átti heldur betur frábært ár og er landsliðskvár í karate, fékk svarta beltið í ár og náði silfur og brons á smáþjóðamóti Evrópu í ár. Við óskum Ísold Klöru innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.
Íþróttalið ársins í Reykjavík 2023 er karlalið Víkings í knattspyrnu
Víkingur átti frábært tímabil og eru Íslands- og bikarmeistarar 2023. Víkings liðið sigraði því allt sem hægt var að sigra á árinu. Liðið setti bæði stiga- og markamet efstudeildar karla í knattspyrnu. Við óskum Víkingi og öllum liðunum til hamingju með árangurinn.
Ingvar Sverrisson formaður ÍBR veitti Degi B. Eggertssyni sérstaka gullmedalíu.
Frá vinstri: Ingvar Sverrisson(formaður ÍBR), Andrea Kolbeinsdóttir(íþróttakona ársins), Ísold Klara Felixdóttir(íþróttakvár ársins), Haraldur Franklín(íþróttakarl ársins), Dagur B. Eggertsson.