Alþjóðaleikar ungmenna (International Childrens Games) fara fram í Lake Placid í New York fylki dagana 7.-10. janúar 2019 og tekur hópur frá Reykjavík þátt.
Vetrarleikarnir í Lake Placid eru áttundu vetrarleikarnir í röðinni en á hverju sumri frá árnu 1968 hafa verið haldnir sumaríþróttaleikar International Childrens Games. Sumarleikarnir voru haldnir í Reykjavík árið 2007 og Reykjavik hefur tekið þátt í leikunum síðan 2001. Þetta er í þriðja sinn sem Reykjavík og ÍBR senda keppendur á vetrarleikana en síðast var farið til Innsbruck í Austurríki árið 2016.
Á þessum leikum keppa ungmenni í ýmsumíþróttagreinum fyrir hönd sinnar heimaborgar. International Children's Games er vettvangur fyrir börn á aldrinum 12-15 ára til að kynnast íþrótt sinni betur við nýjar og krefjandi aðstæður og umhverfi í anda Ólympíuleika en leikarnir eru viðurkenndir af Alþjóða Ólympíunefndinni.
Reykvíski hópurinn hélt utan í morgun en í honum eru sex keppendur í alpagreinum, þrír á gönguskíðum og þrír í listhlaupi á skautum auk þjálfara og fararstjóra. Meðfylgjandi mynd var tekin í Leifsstöð í morgun.
Nánari upplýsingar um leikana má finna á vefnum https://www.lakeplacid2019.com/