80 ára afmæli ÍBR og 40 ára afmæli Reykjavíkurmaraþons

2. september 2024

Haldið var upp á afmæli Íþróttabandalags Reykjavíkur síðastliðinn laugardag húsakynnum KSÍ í Laugardal.  Boðið var upp á sögugöngu með Stefáni Pálssyni.  Veður var heldur leiðinleg þannig að gangan var stutt en gestir leituðu skjóls í fundarsal KSÍ og hlýddu á athyglisvert og afar skemmtilegt erindi Stefáns.  Fjölmennt var í veislunni á eftir en meðal gesta var margt forsvarsfólk í íþróttahreyfingunni auk Einars Þorsteinssonar borgarstjóra.  Boðið var upp á góðar veitingar og flott tónlistaratriði þar sem Sigríður Thorlacius söng nokkur vel valin lög við undirleik Ómars Guðjónssonar gítarleikara við mikla kátínu gesta.

 

Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, hélt ræðu þar sem hann fór yfir sögu ÍBR og hlutverk til framtíðar.  Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ og Andri Stefánsson framkvæmdastjóri fluttu tölu og afhentu ÍBR endurnýjaða viðurkenningu á að vera Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.  Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ árnaði afmælisbörnunum heilla og færði ÍBR gjöf.  Þá hélt Knútur Óskarsson góða ræðu í tilefni af 40 ára afmæli Reykjavíkurmaraþons og talaði um að farsæld hlaupsins væri að mörgu leyti að þakka góðum hópi sjálfboðaliða sem unnið hafa ötult starf í þágu hlaupsins í gegnum árin.  Einar Þorsteinsson færði ÍBR og RM afmæliskveðjur borgarstjórnar og fór yfir mikilvægt samstarf borgarinnar og íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík.

 

Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir vel unnin störf.  Gústaf Adolf Hjaltason fékk gullmerki ÍBR og Knútur Óskarsson og Steinn Halldórsson gullstjörnu ÍBR.

Íþróttabandalag Reykjavíkur þakkar gestum fyrir notalega stund.

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna