Fyrirmyndarfélög

Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og fyrirmyndarhérað ÍSÍ eru gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snúa að íþróttastarfi.

Umsjón með verkefnunum hefur Viðar Sigurjónsson (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.), skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri.

Skjöl tengd fyrirmyndarfélögum má finna hér.

Lista yfir fyrirmyndarfélög má finna hér.

Íþróttahreyfingin gerir kröfur til samfélagsins um stuðning, bæði aðgang að mannvirkjum og beinan fjárstuðning. Íþróttahreyfingin vill að litið sé á þennan stuðning sem endurgjald fyrir þjónustu sem hún veitir öllum þegnum samfélagsins. Til þess að slíkar kröfur séu trúverðugar og réttlætanlegar þarf íþróttahreyfingin að sýna það í verki að hún geri raunhæfar kröfur til sjálfrar sín hvað varðar gæði og innihald þess starfs sem hún vinnur. Þetta hefur hún gert með samþykkt stefnuyfirlýsinga um afmarkaða málaflokka, þar sem fram kemur að hvernig starfi sé stefnt. Slíkar stefnuyfirlýsingar hafa m.a. verið samþykktar um barna- og unglingastarf, menntun þjálfara og forvarnastarf.

Með því að taka upp gæðaviðurkenningu fyrir íþróttastarf geta íþróttafélög eða deildir sótt um viðurkenningu til ÍSÍ miðað við þær gæðakröfur sem íþróttahreyfingin gerir. Standist þau þessar kröfur fá þau viðurkenningu á því frá ÍSÍ og geta kallað sig Fyrirmyndarfélag eða Fyrirmyndardeild.

Verkefnið

Aðdragandi þessa gæðaverkefnis er nokkur. Í árslok 1997 skipaði stjórn Útbreiðslu- og þróunarsviðs ÍSÍ þriggja manna nefnd til að móta tillögur um hvernig standa mætti að því að veita gæðaviðurkenningar fyrir íþróttastarf. Í nefndinni voru Hafsteinn Pálsson, Ásgerður Halldórsdóttir og Haraldur K. Haraldsson. Nefndin skilaði tillögum sínum á vordögum 1998 og voru þær kynntar sviðsstjórninni og Framkvæmdastjórn ÍSÍ. Stefáni Konráðssyni, framkvæmdastjóra, Sigurði Magnússyni, sviðsstjóra og Frímanni Ara Ferdinandssyni, verkefnastjóra var falið að útfæra tillögurnar frekar og leggja fram lýsingu á áframhaldandi vinnuferli. Á grundvelli þeirrar lýsingar var síðan skipaður þriggja manna stýrihópur sem hafði umsjón með verkefninu, en í honum voru Ingólfur Freysson, formaður, Ragnhildur Skúladóttir og Kristinn Reimarsson. Frímann Ari starfaði með stýrihópnum.

Stýrihópurinn leitaði til nokkurra valinna íþróttafélaga, deilda og íþróttabandalaga um að þau tilnefndu fulltrúa sína í vinnuhóp sem væri ætlað að móta tillögur að vinnureglum og gæðakröfum sem gætu orðið forsendur að gæðaviðurkenningu fyrir barna- og unglingastarf. Eftirtaldir aðilar áttu fulltrúa í vinnuhópnum og tóku þátt í þróunarferlinu: Knattspyrnudeild Breiðabliks, Sundfélag Hafnarfjarðar, Skíðaráð Akureyrar, Handknattleiksdeild FH, Tennis- og Badmintonfélag Reykjavíkur, Íþróttabandalag Akraness, Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag og Íþróttafélag Reykjavíkur.

Á fundum sínum fjallaði vinnuhópurinn um fjölmarga þætti í starfsemi íþróttafélaga og deilda auk þess sem sjónarmið sveitarfélaga til gæðaverkefnisins voru rædd á einum vinnufundi. Afrakstur þróunarferilsins var síðan m.a. handbók sem dreift var til íþróttahreyfingarinnar.

Í upphafi ársins 2003 voru veittar fyrstu viðurkenningar til fyrirmyndardeilda og voru þær veittar til þriggja deilda Keflavíkur. Íþróttabandalag Reykjanesbæjar átti frumkvæðið til þess að íþróttafélög á Reykjanesi urðu fyrstu félögin til að leggja í markvissa vinnu út frá gæðaverkefninu.

ÍSÍ réði Petrúnu Bj. Jónsdóttur sem verkefnisstjóra fyrir verkefnið síðari hluta ársins 2003 og fram til vorsins 2004 og fór markviss kynning fram víða um land. Fjölmargir aðilar eru í dag að vinna að og eftir þessu verkefni.

Fyrirmyndarhérað ÍSÍ er verkefni sem samþykkt var á Íþróttaþingi ÍSÍ árið 2015.  Íþróttahéruð ÍSÍ hafa nú möguleika á að sækja um viðurkenningu til ÍSÍ fyrir fyrirmyndarstarf.  Viðurkenning fæst að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem ÍSÍ setur.  Forystumenn sex íþróttahéraða ÍSÍ komu að gerð þessa verkefnis og varð niðurstaðan ákveðinn gátlisti með þeim atriðum í starfsemi íþróttahéraðanna sem héruðin þurfa að uppfylla.  Íþróttahéruð geta því á hvaða tímapunkti sem er sótt um þessa viðurkenningu til ÍSÍ.  ÍSÍ hvetur stjórnir íþróttahéraða til að sækja um þessa viðurkenningu til ÍSÍ.